Háskólagrunnur HR á Austurlandi er undirbúningsnám fyrir háskólanám í samvinnu Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Námið er blanda af hefðbundnu og stafrænu námi en hefðbundin kennsla fer fram í námsveri í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði. Nemendur njóta leiðsagnar reynslumikilla og metnaðarfullra kennara.
„Með þessum hætti getur fólk sótt sér þá menntun sem vantar upp á til að komast í háskólanám á skömmum tíma, en samt á þeim hraða sem hver kýs. Þetta getur fólk gert í heimabyggð þannig að það þarf ekki að flytjast búferlum þó það dreymi um aukna menntun. Fólk hefur sótt nám til okkar víðsvegar af Austurlandi; Reyðarfirði, Neskaupsstað, Eskifirði og Egilsstöðum en lengst að hafa nemendur komið frá Djúpavogi. Nemendur eru á öllum aldri og með mjög ólíkan bakgrunn en eiga það þó sameiginlegt að vilja bæta við sig menntun til þess að komast í áframhaldandi nám á háskólastigi,“ segir Gréta Björg Ólafsdóttir, verkefnastjóri háskólagrunns HR á Austurlandi.
Þrjár námsleiðir eru í boði við Háskólagrunn HR á Austurlandi og ein þeirra er brú úr iðnfræði í tæknifræði. Iðnfræðingar sem fara þessa leið taka allar námsgreinar vorannar í tækni- og verkfræðigrunni en megináherslan í þeim grunni er á stærðfræði og raungreinar auk námskeiða í íslensku og öðrum tungumálum. Náminu er ætlað að tryggja að nemendur lendi ekki í öngstræti heldur geti haldið áfram námi í HR og byggt ofan á fyrra nám. Eftir að hafa bætt við sig einni önn í háskólagrunni geta iðnfræðingarnir því farið beint í tæknifræði, lokið þar BS-gráðu og öðlast löggilt starfsheiti sem tæknifræðingur. Ef áhugi er á meira námi eftir BS-nám geta tæknifræðingar bætt við sig MSc-gráðu í verkfræði.
Aðrar námsleiðir eru viðbótarnám við stúdentspróf, sem hentar þeim sem vilja bæta við sig stærðfræði og raungreinum til undirbúnings fyrir háskólanám, og þriggja anna nám sem veitir rétt til háskólanáms.
Hægt er að hefja nám í öllum námsleiðum nú í janúar og er umsóknarfrestur til 15. desember.
Nánar um háskólagrunn HRGréta Björg Ólafsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn