Við hjá Austurbrú urðum vör við mikinn og jákvæðan áhuga blaðamanna og áhrifavalda á síðasta ári og voru heimsóknir þeirra nokkuð tíðar. Í þessari umfjöllun segjum við frá þeim helstu sem birtust á árinu en listinn er ekki tæmandi.
Áfangastaðastofa Austurlands starfar innan Austurbrúar og vinnur árið um kring að margvíslegu markaðs- og kynningarstarfi fyrir landshlutann. Sem dæmi má nefna samstarf við Íslandsstofu og austfirska ferðaþjónustuaðila um skipulagningu og framkvæmd ferða erlendra blaðamanna um svæðið. Þá fáum við gjarnan fyrirspurnir frá sjálfstæðum blaðamönnum, bloggurum og áhrifavöldum sem við aðstoðum við stóra sem smáa hluti t.d. ferðaskipulagningu og almenn ráð, að koma á samböndum við samstarfsaðila, öflun ljósmynda fyrir umfjallanir og fleira. Auk þess eru gjarnan ferðabloggarar og áhrifavaldar á ferð um landshlutann á eigin vegum en við, með aðstoð Íslandsstofu, fylgjumst með og kortleggjum umfjöllun sem birtist um Austurland og austfirska áfangastaði á vef- og samfélagsmiðlum. Markmiðið er ávallt að kynna gesti okkar fyrir þeim fjölbreyttu möguleikum sem landshlutinn okkar býður upp á í ævintýrum og afþreyingu, mat, gistingu og upplifunum.
Við erum þakklát öllum okkar samstarfsaðilum sem taka á móti blaðamönnum á okkar vegum og vitum að þau leggja mikið á sig við að gera dvöl þeirra eftirminnilega. Allt hjálpar þetta til við að upphefja hið góða starf sem ferðaþjónustan í landshlutanum vinnur og vekja athygli á áfangastaðnum Austurlandi.
Í lok árs 2021 kom hópur blaðamanna frá breskum miðlum og gerðu viðdvöl á Héraði, í Fljótsdal, Breiðdal, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði og var þema ferðarinnar vetrarupplifun á Austurlandi. Þessi ferð var alfarið skipulögð af Áfangastaðastofunni í samstarfi við Íslandsstofu. Flestar þessara umfjallana birtust snemma árs 2022. Grein Emiliu Bona birtist í janúar og febrúar í prentútgáfu Daily Star og Sunday Mirror undir heitinu Frozen Assets og í netútgáfu hér. Ferðasaga Richards Frank birtist svo í þriggja opnu grein undir nafninu Look East í ævintýra- og útivistartímaritinu Mpora í apríl.
William Gray ritaði grein í veftímaritið Wanderlust, sem birtist í janúar, en hann fór um firði, fjöll og firnindi Austurlands og fjallaði ítarlega um það sem fyrir augu bar. Þá birtist um vorið umfjöllun um ferð hjólagarpa um Víknaslóðir í veftímaritinu The Radavist en áhugi á hjólaferðamennsku á vaxandi vinsældum að fagna hjá ferðalöngum á Austurlandi.
Þráinn Kolbeinsson og Þorsteinn Roy Jóhannsson ljósmyndarar voru fengnir til að mynda segla Austurlands, Stuðlagil, Hengifoss, Seyðisfjörð og Borgarfjörð eystri. Í samstarfi við Múlaþing og Dyrfjallahlaupið á Borgarfirði myndaði Þorsteinn líka hlaupið. Samstarfsaðilar hafa aðgang að myndunum úr þessum tökum í gegnum myndabankann okkar þar sem finna má fjöldann allan af vönduðum ljósmyndum af Austurlandi ætlaðar til markaðssetningar.
Ferðabloggarar á vegum vefsíðunnar Families Love Travel gerðu ferðaáætlun sem leggur áherslu á barnvænar upplifanir á Íslandi. Heimsóttu bloggararnir m.a. Djúpavog, Fáskrúðsfjörð og Borgarfjörð, Seyðisfjörð og Egilsstaði. Ferðabloggarinn Adventurous Kate skrifaði tvær ítarlegar greinar um Stuðlagil og Vök baths, en áhersla hennar er á ferðamannastaði fyrir konur sem vilja ferðast einsamar um heiminn. Þá má ekki gleyma fréttamanninum knáa, Magnúsi Hlyni Hreiðarssyni, sem ferðaðist í sumar um landshlutann fyrir Vísi/Stöð 2 og tók púlsinn á fólki og fjórfætlingum fyrir þátt sinn Hvar er Magnús Hlynur?
Í lok júlí kom Kevin Rushby, ritstjóri ferðahluta dagblaðsins The Guardian, til Austurlands með Norrænu og ferðaðist víðs vegar um landshlutann á hjóli, m.a. um Víknaslóðir, Berufjörð, Breiðdal og Seyðisfjörð. Ferðin var hluti af greinaröð sem lagði áherslu á hjólreiðar sem ferðamáta en á leiðinni kom hann við í Danmörku og Færeyjum. Greinina má les hér.
Jason og Emily, ljósmyndarar og áhrifavaldar frá Ástralíu, voru hér í lok september. Þau deildu efni á miðlum sínum sem við deildum svo áfram. Í lok október kom Rúrik Gíslason, fyrrverandi fótboltamaður, dansari og núverandi áhrifavaldur, austur sem partur af stóru kynningarátaki Icelandair, Íslandsstofu og Áfangastaðastofu Austurlands um landshlutann. Úr því urðu til fimm videoblogg um ferðina sem hafa fengið mikla athygli, auk efnis fyrir samfélagsmiðla.
Í haust komu blaðamaðurinn Farida Zeynalova og ljósmyndarinn Gregory Funnell frá National Geographic til landsins með það að markmiði að fjalla um íslenska og austfirska matargerð og -hefðir. Sú umfjöllun mun birtast á vefsíðu tímaritsins undir liðnum Breaking Bread fljótlega. Í nóvember kom hópur franskra blaðamanna og kynnti sér franskar tengingar landshlutans frá fyrri tíð, sem og bað- og matarmenningu. Ein grein hefur nú þegar verið birt í franska tímaritinu Or Norme en þær verða fleiri. Blaðið er að miklu leyti tileinkað Íslandi og hefst umfjöllun um Austurland á bls. 56.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn