Fyrr í mánuðinum var haldinn góður fundur um ræktun á Austurlandi á Egilsstöðum. Um var að ræða annan fund í verkefninu Vatnaskil sem Austurbrú hrinti af stað í fyrra en fyrsti fundurinn var í febrúar og sá næsti fyrirhugaður í vor.
Á þessum fundum koma Austfirðingar saman og ræða mat og matvælaframleiðslu á víðum grunni. Tilgangurinn er að auka samtal og upplýsingagjöf milli fólks sem brennur fyrir austfirskri matvælagerð og vonandi skapa vettvang til samstarfs og samvinnu og frekari atvinnusköpunar.
Fundurinn var haldinn 6. mars og var tvískiptur eins og fundurinn í febrúar. Í fyrri hluta voru þrjú erindi og framsögumenn voru eftirfarandi:
Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi og formaður Vor (Félag framleiðenda í lífrænum búskap) var með erindi um þau tækifæri sem fyrir hendi eru í lífrænni ræktun. Sigurður Max Jónsson, ráðunautur RML, fór yfir stöðu ræktarlands á Austurlandi ásamt stöðu kornræktar á svæðinu og að lokum sagði Eymundur Magnússon í Vallanesi frá reynslu sinni af kornrækt síðustu þrjátíu árin eða svo en í máli hans kom m.a. fram að hann teldi alveg pláss á markaðnum fyrir fleiri í kornrækt til manneldis.
Í seinni hluta voru umræður. Þátttakendum var skipt í tvo hluta. Annars vegar var hópur sem ræddi kornræktun. Í honum var m.a. rætt um mikilvægi skjólbeltaræktunar og þýðingu skjólbelta fyrir ræktun. Þá komu hugmyndir stjórnvalda um stuðning við aukna kornrækt og fyrirhugað stuðningskerfi til umræðu. Í hinum hópnum fór fram almenn umræða um ræktun. Í henni kom m.a. fram að talsverð vöntun væri á þekkingu á gróðurhúsaræktun á Austurlandi. Þátttakendur veltu fyrir sér styrkleikum Austurlands í grænmetisræktun. Mjög mikið væri t.d. ræktað af kartöflum og það væri gríðarlega mikilvægur vöruflokkur fyrir Íslendinga ef til fæðuskorts kæmi.
Verkefnið Vatnaskil er unnið í samvinnu við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands og hlaut það styrk úr byggðaáætlun í febrúar 2023. Það er unnið á grunni Svæðsskipulags Austurlands 2022-2044 þar sem m.a. er kveðið á um að landbúnaður verði áfram ein af lykilatvinnugreinum landshlutans. Því er ætlað að sporna við fólksfækkun í dreifðum byggðum og auka fjölbreytni í atvinnulífi á Austurlandi.
Þriðji fundurinn verður haldinn í vor og þá er hugmyndin að taka fyrir tækifæri og áskoranir í orkuöflun og orkuskiptum í dreifbýli.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn