Byggðastofnun vinnur nú að því að uppfæra mælaborð stofnunarinnar sem snýr að því að kortleggja húsnæði fyrir óstaðbundin störf um allt land. Austurbrú tók þessar upplýsingar saman á síðasta ári og má finna fjölbreytt húsnæði um allt Austurland á heimasíðu verkefnisins. Þar eru upplýsingar um tæplega 30 rými, allt frá hefðbundu skrifstofurými yfir í verkstæði, iðnaðarhúsnæði, vottað eldhús, gestastofur og allt þar á milli.
Mikilvægt er fyrir fjórðunginn að bjóða uppá slík rými, enda getur það aukið aðdráttarafl svæðisins t.d. fyrir fólk sem þarf að starfa tímabundið á svæðinu, listafólk sem vill nýta kosti fámennisins og aðra sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.
Austurbrú óskar því hér með eftir fleiri rýmum til að setja inn á heimasíðuna sem verður þá einnig birt á mælaborði Byggðastofnunar og eru áhugasöm beðin að setja sig í samband við Halldóru Dröfn Hafþórsdóttur, verkefnastjóra hjá Austurbrú.
Samkvæmt byggðaáætlun skal taka saman yfirlit um fjölda slíkra rýma og er mikilvægt er að vel til takist við söfnun upplýsinga um húsnæðin af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi á samkvæmt byggðaáætlun að taka saman yfirlit um fjölda starfsstöðva/rýma og fjölda ríkisstarfa sem eru óháð staðsetningu. Þetta á að gera til að hægt verði að setja markmið um fjölgun vinnurýma og óstaðbundinna starfa með sem jafnastri dreifingu um landið. Fljótlega verður lögð spurningakönnun fyrir þau sem bjóða upp á slík rými og verða niðurstöður hennar, ásamt upplýsingum um rýmin/starfsstöðvarnar, notaðar til uppsetningar á samkeppnispottum sem annars vegar styðja við uppbyggingu vinnustaðaklasa og hins vegar vegna starfa sem staðsett verða í skilgreindum vinnustaðaklösum víða um land samkvæmt aðgerð B.7. óstaðbundin störf á byggðaáætlun.
Ef þið hafið einhverjar upplýsingar sem gætu nýst okkur eða fyrirspurnir þá hikið ekki við að hafa samband.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn