Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044

Skipulagið er tæki breytinga

„Það á einfaldlega að vera skylda okkar allra að hafa jákvæð áhrif á samfélagið komandi kynslóðum til hagsbóta. Með skipulagsvaldinu er hægt að hafa áhrif á allt það sem varðar nærsamfélagið.“

 

Mánudaginn 21. mars hófst umsagnarferli við kynningartillögu Svæðisskipulags Austurlands 2022 – 2044. Svæðisskipulagsnefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem starfar í umboði sveitarstjórna á Austurlandi, hefur unnið hefur að tillögunni um nokkurt skeið. Tilgangur vinnunnar er að marka sameiginlega framtíðarsýn og meginstefnu sveitarfélaganna á Austurlandi til að takast á við þessar áskoranir og byggja landshlutann upp sem enn sterkari landfræðilega, hagræna og félagslega heild.

Skipulagið er tæki til breytinga

Verkefni þeirra sem bjóða sig fram til að starfa í sveitarstjórnum er ekki að viðhalda óbreyttri stöðu, heldur þróa samfélagið áfram og bæta það með öllum ráðum. Það á einfaldlega að vera skylda okkar allra að hafa jákvæð áhrif á samfélagið komandi kynslóðum til hagsbóta.

Tækið til slíkra breytinga er skipulagið. Með skipulagsvaldinu er hægt að hafa áhrif á allt það sem varðar nærsamfélagið

Skipulagsvinna sveitarfélaga teygir sig frá hinu smáa og sértæka yfir í umfangsmikla almenna stefnumótun. Útfærsla einstakra lóða og svæða er skilgreind í deiliskipulagi og aðalskipulag skilgreinir landnotkun í sveitarfélaginu öllu auk þess að fela í sér stefnumörkun um uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins í breiðum skilningi.

Í kynningartillögu Svæðisskipulags Austurlands 2022 – 2044 birtist sameiginleg framtíðarsýn fyrir Austurland sem önnur stefnumörkun innan svæðisins mun hafa til hliðsjónar á næstu árum. Hvað viljum við varðveita og hverju viljum við breyta?

Um leið er leitast við að setja niður á blað hvað það er sem sameinar okkur. Hvað einkennir þessi sameiginlegu heimkynni okkar?

Opið samráð

Samskipti sveitarstjórnarfólks í landshlutanum einkennast af samstöðu og saga samvinnu á milli sveitarfélaga á Austurlandi er bæði löng og blómleg. Þessi samvinnuhefð er dýrmæt og án hennar hefði verið erfitt að móta sameiginlega framtíðarsýn og setja niður á blað eins og nú hefur verið gert. Sem fyrr segir er hafið opið umsagnarferli um tillöguna og er hún aðgengileg öllum í samráðsgátt stjórnvalda (samradsgatt.island.is). Breið þátttaka í umsagnarferlinu er mikilvæg og við hvetjum fólk til að kynna sér tillöguna, segja sína skoðun og koma á framfæri til okkar athugasemdum eða tillögum um það sem betur mætti fara.

Okkar ósk er sú að til verði á endanum leiðarljós fyrir Austurland, byggt á markmiðum sem þjóðir heimsins hafa sett sér, sem skila muni komandi kynslóðum samfélagi þar sem almenn lífskjör verða með því besta sem gerist.

Höfundar

Stefán Bogi Sveinsson

Formaður svæðisskipulagsnefndar SSA


Stefán Bogi Sveinsson

[email protected]

Varaformaður svæðisskipulagsnefndar SSA


Eydís Ásbjörnsdóttir

[email protected]