Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað 140 milljónum króna til þrettán fjölbreyttra verkefna um land allt, sem hluti af byggðaáætlun. Meðal þeirra verkefna sem hljóta styrk er uppbygging samvinnuhúss á Vopnafirði en Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fær 14,1 milljón króna til verkefnisins.
Samvinnuhús á Vopnafirði er hluti af stærra átaki til að kortleggja og efla starfsemi samvinnurýma á Austurlandi. Markmiðið er að skapa aðstöðu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi, styðja við óstaðbundin störf og auka möguleika á fjarnámi í byggðakjörnum landshlutans. Með þessu verður stuðlað að sjálfbærri byggðaþróun og fjölbreyttari atvinnumöguleikum á svæðinu í samræmi við stefnu Svæðisskipulags Austurlands 2022–2044 og Sóknaráætlun Austurlands 2025–2029.
Markmið úthlutunarinnar er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar eru í forgangi. Uppbygging samvinnuhúss á Vopnafirði fellur vel að þessum markmiðum og mun stuðla að nýjum tækifærum í atvinnulífi og samfélagi á Austurlandi.
Haustþing SSA hefur ítrekað kallað eftir öflugri innviðauppbyggingu og fjölbreyttari atvinnutækifærum í landshlutanum. Úthlutunin til samvinnuhúss á Vopnafirði styður þannig við markmið svæðisins um að efla atvinnulíf og styrkja stoðir byggðanna.
Nánari upplýsingar um úthlutun styrkja má finna á vef Stjórnarráðsins.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn