1. Gildissvið

Siðareglur þessar gilda um alla starfsmenn og stjórnarmenn Austurbrúar ses, sem við ráðningu til starfa eða kosningu til trúnaðarstarfa undirgangast reglur þær sem hér fara á eftir.

2. Almennt

Við skuldbindum okkur til að hlíta þeim lögum sem stofnunin starfar eftir og þeim vinnureglum sem framkvæmdastjóri og stjórn setja á hverjum tíma. Við sýnum samstarfsfólki og viðskiptavinum stofnunarinnar ávallt virðingu og þjónustulund. Framkoma okkar á að endurspegla alúð og virðingu fyrir þeirri þjónustu sem stofnunin veitir. Við sýnum hvert öðru gagnkvæma virðingu og komum í veg fyrir að hjá stofnuninni viðgangist óréttlæti, svo sem einelti, kynferðisleg áreitni eða mismunun byggð á kynferði, aldri, trú eða kynhneigð.

Við leggjum áherslu á heilindi, hlutlægni, gagnrýna hugsun, fagleg vinnubrögð og málefnalegan rökstuðning í starfi okkar fyrir Austurbrú.

Við munum gæta varkárni í umfjöllun okkar um stofnunina á opinberum vettvangi og ekki viðhafa nein ummæli er varpað geta rýrð á ímynd og starfsemi stofnunarinnar. Þegar og ef viðkvæm málefni koma upp á opinberum vettvangi, er kunna að varða trúverðugleika stofnunarinnar og/eða einstaka starfs – eða stjórnarmenn þess skulu framkvæmdastjóri og eftir atvikum stjórnarformaður stofnunarinnar vera talsmenn út á við.

3. Trúnaður

Við erum, svo sem lög kveða á um, bundin þagnarskyldu um hvað eina sem við verðum áskynja í starfi og snertir alla samstarfsaðila og hagsmunaaðila, sem og um trúnaðarmál
stofnunarinnar, og helst sú skylda þrátt fyrir starfslok. Við nýtum ekki trúnaðarupplýsingar og/eða þekkingu sem við höfum aflað í starfi okkar hjá stofnuninni, til ávinnings fyrir okkur sjálf eða aðra.

Við höfum sérstaka varúð við geymslu, ljósritun, tölvuskráningu og eyðingu gagna til að tryggja trúnað við viðskipavini og samstarfsaðila.

4. Hagsmunaárekstur

Við vinnum öll okkar verk af heiðarleika og forðumst hagsmunatengsl. Við upplýsum um þau tengsl sem kunna að vera við afgreiðslu mála og segjum okkur frá málum eða afgreiðum mál á rökstuddan og gangsæjan hátt hafi slíkt verið samþykkt af framkvæmdastjóra. Við tökum ekki við gjöfum (umfram smágjafir) eða annars konar greiðslu eða þjónustu,
svo sem boðsferðum eða skemmtunum, nema með skriflegu samþykki framkvæmdastjóra eða stjórnar. Sama gildir um gjafir frá viðskiptavinum og hagsmunaaðilum
stofnunarinnar eða öðrum þeim sem gætu hagnast á ákvörðunum starfsmanna eða stjórnar.

5. Stjórnarseta starfsmanna

Við tökum ekki að okkur stjórnarsetu í fyrirtækjum og stofnunum sem líklegt er að geti leitt til hagsmunaárekstra við störf okkar hjá Austurbrú. Við upplýsum framkvæmdastjóra og stjórn um stjórnarsetu í fyrirtækjum og stofnunum. Stjórn getur gert athugasemdir við stjórnarsetu starfsmanna.

6. Félagsmál starfsmanna

Við látum gott af okkur leiða í samfélaginu með þátttöku í samfélagsmálum en gætum þess jafnframt að þátttaka í stjórnmálastarfi eða öðru félagsmálastarfi hafi ekki óæskileg
áhrif á störf okkar hjá stofnunni eða orðspor hennar.

7. Brot á siðareglum

Brot á siðareglum þessum getur valdið brottvikningu úr starfi að undangenginni áminningu. Broti á reglum ber að vísa til umfjöllunar og úrskurðar hjá siðanefnd Austurbrúar.

8. Birting og kynning

Siðareglur þessar eru birtar á vef stofnunarinnar. Starfsmönnum og stjórnarmönnum skulu kynntar siðareglurnar þegar þeir koma til starfa.