Bergþóra Valgeirsdóttir

Er alltaf með símann á lofti

Bergþóra Valgeirsdóttir, frá Lindarbrekku í Berufirði, sigraði í ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs.

Fjölmargar myndir bárust í ljósmyndasamkeppnina sem haldin var á Dögum myrkurs.  Alls sendu 20 manns inn um 70 ljósmyndir og fór þátttakan fram úr björtustu vonum.  Myndirnar voru eins fjölbreyttar og þær voru margar og voru þó nokkrar sem komu til greina sem „mynd ársins“.  

Það fór þó svo að dómnefndin var sammála um að bestu myndina í ár ætti Bergþóra Valgeirsdóttir, frá Lindarbrekku í Berufirði.  Hún hlýtur í verðlaun 50.000 krónur.

Berþóra segist ekki vera neitt sérstaklega dugleg að taka ljósmyndir en eins og flestir foreldrar sé hún „alltaf með símann á lofti“. Bergþóra á nýlegan Samsung-síma með góðri myndavél og verðlaunamyndin var einmitt tekin á téðan síma.

„Ég tek ljósmyndir á hverjum degi, snöpp og annað slíkt, eins og fólk gerir í dag,“ segir hún. Myndin varð þannig til að Bergþóra var að koma úr fjárhúsinu eitt kvöldið með dóttur sinni þegar þau sáu traktorinn, sem stendur á túninu, í fallegu tungsljósi og ljósmynd var smellt af. „Traktorinn hefur ekki verið notaður á þessari öld,“ segir hún. „Síðast um miðjan tíunda áratuginn líklega. Afi eiginmannsins míns keypti hann hingað árið 1952 og hann stendur þarna á túninu. Ég er með hann fyrir augunum á hverjum degi og fæ ekki nóg af honum.“

Bergþóru eru veittar hamingjuóskir fyrir þessa fallegu ljósmynd og öðrum þátttakendum þakkað fyrir sitt framlag.

Dagar myrkurs 2020
Verðlaunamyndin í ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs árið 2020. Ljósmyndari: Bergþóra Valgeirsdóttir.