Magdalena Aneta Marcjaniak.

 

„Það hefur mikil áhrif á sjálfstraustið þegar maður sest að í nýju landi“

  • Magdalena Aneta Marcjaniak kennir pólskumælandi nemendum sjálfseflingu hjá Austurbrú.

Magdalena Aneta Marcjaniak er kennari námskeiðins og á því ætlar hún að fjalla sérstaklega um hluti sem koma að gagni fyrir innflytjendur. „Það hefur mikil áhrif á sjálfstraustið þegar maður sest að í nýju landi,“ segir hún. „Þú þekkir ekki siði og venjur og þú kannt lítið eða ekkert í tungumálinu. Sjálfstraustið minnkar þegar þú skilur ekki menninguna, þú sérð ekki hvar tækifærin leynast og þá er hættan sú að þú lokir þig af.“

Á hvað muntu leggja áherslu í náminu?

„Ég er innflytjandi sjálf þannig að ég get að vissu leyti byggt kennsluna á eigin reynslu,“ svarar Magdalena. „Það skiptir máli að vera opin og sveigjanlegur gagnvart nýjum kúltúr og líka gagnvart Íslendingum þótt þetta sé auðvitað alltaf samspil á milli nýrra íbúa og heimamanna. Oft vantar þennan hóp bara einhvern til að þrýsta á sig, einhvern sem spyr nýrra spurninga og fær þig þannig til að hugsa sumt frá nýjum sjónarhóli. Ég lít þannig á að ég sé að fylgja þeim nokkur skref og hjálpa þeim með nokkur grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi þegar maður aðlagast nýju samfélagi. Oft eru þetta bara hagnýtir hlutir eins og að skipuleggja sig rétt og þess háttar.“

Magdalena kemur frá Póllandi, frá bæ skammt frá Varsjá. Hún kom fyrst til Íslands árið 1996 en settist að árið 2001 og býr á Egilsstöðum ásamt eiginmanni og tíu ára gömlum syni. Hún vinnur í hálfu starfi hjá Alcoa Fjarðaáli en hefur á síðustu árum sótt sér menntun í markþjálfun og í klínískri sálfræði við pólskan háskóla þar sem hún mun ljúka námi að ári. Þetta er í fyrsta sinn sem hún kennir heilum hópi sjálfsstyrkingu:

„Ég hef hjálpað fólki í einstaklingsviðtölum þannig að það verður áskorun að kenna heilum hópi,“ segir hún. „En ég hlakka til. Ég er ófeimin, félagsvera í eðli mínu og mér finnst þ.a.l. gaman að vinna í hópi.“

Námskeiðið er haldið fyrir Vinnumálastofnun og hefst það, sem fyrr segir, í dag. Alls verða kenndar tólf kennslustundir.

Nánari upplýsingar:


Hrönn Grímsdóttir

470 3833 // [email protected]