Sköpunarmiðstöðin Stöðvarfirði

Afrek að halda starfseminni úti

„Sköpunarmiðstöðin fæddist skömmu eftir hrun, samfélagið á Stöðvarfirði var í sárum atvinnulega séð og það skal enginn halda að þetta hafi verið auðvelt fyrstu árin“ – Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú.

Sköpunarmiðstöðin starfar á sviði menningar, fræðslu og atvinnuuppbyggingar á grunni skapandi greina með það að marki að stuðla að jákvæðri byggðaþróun svæðisins. Í Sköpunarmiðstöðinni er eitt glæsilegasta hljóðver landsins, Stúdíó Síló, auk fjölbreyttra verkstæða til skapandi starfa, svo sem keramikverkstæði, trésmíðaverkstæði o.fl. Í miðstöðinni er einnig tónleikasalur og þar eru reglulega haldnir viðburðir og tónleikar.

Miðstöðin hefur boðið upp á vinnustofudvöl fyrir lista- og tónlistarfólk árið 2015 og hafa yfir 300 einstaklingar dvalið og starfað til lengri eða skemmri tíma í miðstöðinni að ótöldum öllum þeim fjölda tónlistarfólks sem hefur komið fram í tónleikasal miðstöðvarinnar eða tekið upp tónlist í hljóðveri hennar.

„Auðvitað er það í sjálfu sér afrek að halda þessari starfsemi úti í tíu ár,“ segir hún. „Sköpunarmiðstöðin fæddist skömmu eftir hrun, samfélagið á Stöðvarfirði var í sárum atvinnulega séð og það skal enginn halda að þetta hafi verið auðvelt fyrstu árin. Já, og það er raunar ekki auðvelt enn í dag að halda svona starfsemi úti þótt allir viðurkenni, í það minnsta í orði, hversu mikilvæg hún sé.“

„Þau sem stóðu í framlínunni fyrstu árin hafa vikið og við hefur tekið nýtt og kraftmikið fólk sem lyft hefur grettistaki á síðustu árum með ótrúlegum dugnaði og metnaði. Verkefni okkar, sem tilheyrum stoðkerfinu, er að tryggja að þetta magnaða fólk gefist ekki upp. Þau hreinlega mega það ekki og þá þurfum við hin að styðja þau eins og við getum. Það má segja að ríki og sveitarfélag hafi sett sjö fingur inn í verkefnið en við þurfum að nota tíu ef vel á að takast. Við eigum að greiða götu svona starfsemi og skapa umgjörð þar sem hún getur vaxið enn frekar. Það á að vera metnaðarmál samfélagsins að hjálpa til svo hægt sé að klára umbætur á húsnæðinu því Sköpunarmiðstöðin verður ekki hluti af samfélaginu að fullu fyrr en húsið er tilbúið. Þá fyrst er hægt að hefja alls konar vinnu innandyra sem allt samfélagið getur notið góðs af s.s. eins og námskeið og annað starf fyrir börn og unglinga. Það er nefnilega gríðarlega mikilvægt að ungt fólk kynnist listum og listafólki, verði fyrir áhrifum þess og tengist því. Við lifum á tímum breytinga og eftirspurn eftir skapandi fólki hefur vaxið mikið og sú þróun mun bara halda áfram. En samband Sköpunarmiðstöðvarinnar við nærsamfélagið getur ekki blómstrað að fullu fyrr en húsið er klárt.“

Signý segir mikilvægi Sköpunarmiðstöðvarinnar á Austurlandi sé að minnsta kosti tvíþætt:

„Í fyrsta lagi skiptir auðvitað máli fyrir nærsamfélagið að svona starfsemi dafni. Hér áður fyrr voru frystihúsin, hafnirnar eða sláturhúsin miðjan í hverju samfélagi en með breyttum lífsháttum hefur þetta breyst á mörgum stöðum og menningarmiðstöðvar af ýmsum toga hafa tekið þetta hlutverk að sér. Þetta hefur t.d. gerst á Stöðvarfirði og í gegnum Sköpunarmiðstöðina kemur fólk með ýmis konar reynslu og sýn sem við getum notfært okkur og lært af.“

En það má líka skoða þetta í miklu stærra samhengi. Tilvera Sköpunarmiðstöðvarinnar er í grunninn byggð á skapandi hugsun og það skiptir mestu máli. Við lifum á tímum þar sem menn munu leita nýrra lausna á alls konar málum m.a. til að bregðast við loftslagsvá. List byggir á skapandi hugsun og hún er forsenda nýsköpunar og þannig tengist þetta allt í mínum huga,“ segir hún.

Afmælisdagskráin hefst klukkan 14 á laugardag, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Kl.14:00 ~ Húsið opnar, gestum er boðið á pop-up kaffihús KAFFI KVARNAR og tónlistarflutningur MARGRÉTAR ARNARDÓTTUR

Kl. 14:30 ~ Leiðsögn um Sköpunarmiðstöðina

Kl. 15:00 ~ Setning afmælishátíðar, Signý Ormarsdóttir, Ívar Ingimarsson og Una Sigurðardóttir flytja erindi. Boðið er uppá léttar veitingar og tónlistarflutningur JÓHÖNNU SELJAN ásamt hljómsveit.

Kl. 17:00 ~ Afhjúpun ÚTILISTAVERKS eftir ARNGRÍM SIGURÐSSON

Kl. 21:00 ~ Tónleikar HATARA