Nú í vor hefur Austurbrú staðið fyrir námskeiði fyrir 60 ára og eldri þar sem kennt er á snjalltæki, bæði síma og spjaldtölvur. Kennsla fór fram í Neskaupstað, á Eskifirði og Egilsstöðum og fullt var í alla hópa þar sem að hámarksfjöldi þátttakenda er átta í hvert sinn.

Markmið námskeiðsins er að vekja áhuga þátttakenda á því sem tæknin hefur upp á að bjóða svo þeir sjái hag sinn í að auka þekkingu sína og frumkvæði og geti notið fjölbreyttrar afreyingar á netinu. Einnig er ætlunin að námsmenn öðlist aukið sjálfstraust í tækni- og tölvumálum og hræðist ekki að prófa sig áfram og spyrja spurninga. Á námskeiðinu er m.a. kennt á tölvupóst, samfélagsmiðla, efnisveitur og rafræn skilríki. Kennarar á námskeiðinu eru frá Austurbrú og þátttaka er ókeypis þar sem verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu.

Fyrsti hópurinn hefur lokið námskeiðinu og var elsti þátttakandinn að verða 92 ára gamall. Hópurinn var ánægður en hefði þó viljað hafa námskeiðið lengra. Í haust verða haldin námskeið á fleiri stöðum á Austurlandi og verða þau auglýst í ágúst.

Þátttakendur að loknu námskeiði í Neskaupstað.