Spennandi erindi

Á stefnumótinu komu fram fulltrúar sveitarfélaga og fyrirtækja sem lýstu stöðunni eins og hún er í dag og fóru yfir mögulega framtíðarsýn og tækifæri sem felast í eflingu skíðasvæðanna.

Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir hjá Múlaþingi og Magnús Árni Gunnarsson hjá Fjarðabyggð ráku í sínum erindum kostnað við rekstur svæðanna, áskoranir og tækifæri til framtíðar.

Smári Kristinsson, skíðaáhugamaður og framkvæmdastjóri hjá Alcoa Fjarðaáli, lýsti skoðunum sínum á mikilvægi skíðasvæðanna og taldi þau hafa mikið aðdráttarafl fyrir nýja íbúa. Hann hvatti til samvinnu skíðasvæðanna og sagði bættar samgöngur innan landshlutans bjóða upp á mörg tækifæri til að byggja upp svæðin.

Ingimar Elí Hlynsson, sölustjóri hjá Icelandair, fór yfir stöðuna út frá sjónarhorni fyrirtækisins. Hann sagði gríðarleg tækifæri fólgin í vetrarferðamennsku á Austurlandi og hvatti heimamenn til að búa til spennandi „pakka” fyrir ferðamenn.

Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri, lýsti sínum skoðunum á málinu en hann tekur á móti fjölda ferðamanna sem sækjast eftir því að komast á skíði fyrir austan. Hann lýsti auk þess sjónarmiðum heimamanns en hann hefur iðkað skíði frá barnsaldri og taldi nær útilokað að hann byggi fyrir austan ef ekki væri fyrir skíðasvæðið í Oddsskarði. Hann taldi það raunar skoðun margra að skíðasvæðin væru gríðarlega mikilvæg lífsgæði fyrir þá sem hér búa.

Sólborg Steinþórsdóttir, hótelstjóri Berjaya Hotels á Egilsstöðum, fjallaði um mikilvægi markaðssetningar í sínu máli þ.e. að upplýsingar um skíðasvæðin væru traustar og aðgengilegar og benti auk þess á þýðingu skíðasvæðisins á Akureyri fyrir ferðaþjónustu fyrir norðan, að aðdráttarafl þess fyrir innlenda og erlenda ferðamenn yrði seint ofmetið.

Guðmundur Karl Jónsson var síðastur á mælendaskránni en hann er skíðarekstrarfræðingur, var forstöðumaður í Hlíðarfjalli um tíma og kom raunar að því að byggja upp skíðasvæðið þar. Hann rakti uppbyggingarsöguna fyrir norðan og hvernig samfélagið tók höndum saman um að efla skíðasvæðið m.a. með fjárframlögum frá einkafyrirtækjum.

Nánari upplýsingar