Ályktanir um samgöngumál

Hringtenging Austurlands

Haustþing SSA leggur áherslu á að ríkisvaldið standi við fyrirheit um fjármögnun þeirra samgönguúrbóta sem eru í núgildandi samgönguáætlun og eru í samræmi við ályktanir SSA undanfarin ár og Svæðisskipulag Austurlands 2022 – 2044.

Kallað hefur verið eftir samgönguúrbótum til að skapa hringtengingu á miðsvæði Austurlands þannig að til verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði sem rýfur vetrareinangrun byggðalaga og tryggir ávallt örugga undankomuleið þegar hættuástand skapast vegna ofanflóða. Haustþing SSA leggur þunga áherslu á að hönnun ganga frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar fari fram samhliða vinnu við Fjarðarheiðargöng.

Vopnafjörður er órjúfanlegur hluti af atvinnu- og þjónustusvæðinu Austurland og hann þarf að tengja betur við aðra byggðakjarna Austurlands með jarðgöngum undir Hellisheiði.

Bundið slitlag í dreifbýli

Haustþing SSA samþykkir að beina því til innviðaráðherra og Vegagerðarinnar að hefja þegar uppbyggingu vega með bundnu slitlagi í dreifbýli á Austurlandi. Í ljósi aukins umferðarþunga, m.a. vegna ferðamanna, eru malarvegir víða á Austurlandi óboðlegir.

Öxi og Suðurfjarðarvegur

Haustþing SSA ítrekar að framkvæmdir við endurgerð á Suðurfjarðarvegi og heilsársveg um Öxi hefjist sem fyrst. Slysatíðni er há á Öxi og Suðurfjarðarvegur er metinn einn af hættulegustu vegaköflum landsins auk þess að standa byggðarkjörnum Suðurfjarða fyrir þrifum í áframhaldandi þróun. Í þessu sambandi áréttar haustþingið að einbreiðar brýr á Þjóðvegi 1 og öðrum fjölförnum vegum eru tímaskekkja sem setja þarf aukinn kraft í að fjarlægja úr íslenska vegakerfinu. Jafnframt verði skoðað, þegar til þess kemur, hvort skynsamlegra sé að gera göng um Suðurfirði í stað endurgerðar Suðurfjarðarvegar út frá arðsemi, öryggi og styttingar á Þjóðvegi 1. Haustþingið leggur þó áherslu á að sú skoðun seinki ekki framkvæmdum sem nú eru tillögur um og þola enga bið.

Uppbygging Egilsstaðaflugvallar

Haustþing SSA skorar á stjórnvöld að forgangsraða framar uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. Það er í samræmi við fyrstu flugstefnu Íslands frá árinu 2019 og í takti við aukið mikilvægi hans sem varaflugvallar fyrir Keflavíkurflugvöll á eldsumbrotatímum á Reykjanesinu. Þá munu möguleikar vallarins til aukinna vöru- og farþegaflutninga margfaldast. Í þessu samhengi vill haustþing SSA ítreka mikilvægi þess að flugáætlanir innanlandsflugs séu áreiðanlegar, sætaframboð fullnægandi og Loftbrúin efld enn frekar svo flug verði raunverulega hagkvæmur samgöngukostur fyrir íbúa Austurlands.

Lesa má allar ályktanir þingsins hér.

Nánari upplýsingar


Dagmar Ýr Stefánsdóttir

862 1084 // [email protected]