Garðar Valur Hallfreðsson

„Það er lykilatriði að geta unnið með öðru fólki“

Garðar Valur Hallfreðsson er tölvunarfræðingur hjá Austurneti á Egilsstöðum. Hann segir frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og lausnamiðuð hugsun skipta miklu máli í sínu starfi að ógleymdri færni í mannlegum samskiptum. „Tölvunarfræðingur í vondu skapi á að fara heim og hvíla sig!“ segir hann.

Sveigjanleiki, fjölhæfni og hugrekki

Sem fyrr segir starfar Garðar hjá Austurneti í dag. Þetta er hugbúnaðafyrirtæki á Austurlandi, staðsett á Egilsstöðum, og þar starfa m.a. tölvunarfræðingar og aðrir hugbúnaðarsérfræðingar. Fyrirtækið þjónar alls konar fyrirtækjum, stórum sem smáum, en flest eiga þau sammerkt að vera með starfsemi á Austurlandi. Það er þó ekki algilt. Kúnnahópurinn nær vel út fyrir landshlutann og raunar hefur Austurnet þróað hugbúnaðarlausnir sem notaðar eru á alþjóðavettvangi.

„Ég held að starfsemi okkar sé mjög lituð af því umhverfi sem var hérna eftir bankahrunið,“ segir hann. „Við unnum mikið fyrir frumkvöðla á fyrstu árunum og erum enn í dag verkefnadrifið fyrirtæki. Við vinnum með mörgum fyrirtækjum sem hafa ólíkar þarfir og vinnan tekur mið af því. Við þurfum að vera sveigjanleg, fjölhæf og með kjark til að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja starfsumhverfinu.“