Starfsmenn Austurbrúar, þær Signý Ormarsdóttir og Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, heimsóttu Færeyjar, vikuna 10.-14. mars sl. Ferðin var fræðandi og gefandi, með fjölbreyttum fundum og heimsóknum sem varpa ljósi á samstarfsmöguleika milli Færeyja og Austurlands. Markmið ferðarinnar var m.a. að efla tengsl við ferðaþjónustu, landbúnað og menningu, sem geta leitt til aukinnar efnahagslegar samvinnu og dýpkaðra menningartengsla.
Fyrsta heimsóknin var á skrifstofu Visit Færeyjar. Þar voru ýmis mál rædd, en þó helst mikilvægi þess að finna fleiri leiðir til að auka samstarf og samvinnu og nýta ferjuna Norrænu. Gaman er að segja frá því að við á Austurlandi lítum til margra góðra hluta sem Færeyingar eru að gera í sinni markaðssetningu og ferðaþjónustu á meðan Færeyingar hafa líka litið til Íslands varðandi það sem vel er gert hér.
Einnig var rætt um skemmtiferðaskip og hvernig Færeyingar vilja forðast of mikla umferð stórra skipa. Markmiðið er að stýra ferðamennsku þannig að gæði og sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi frekar en fjöldi gesta. Þau hafa sett sér þá stefnu að takmarka fjölda skemmtiferðaskipa sem koma til Þórshafnar ár hvert og leggja áherslu á minni skip með umhverfisvænni rekstur.
Á fundum með Heidi Holm, starfsmanni á umhverfissviði Þórshafnarbæjar og Tróndur, framkvæmdastjóra Búnaðarstofu Færeyja, var m.a. rætt um breytta landbúnaðarstefnu Færeyja og nýjar áherslur Þórshafnarbæjar varðandi umhverfisvitund og náttúruvernd. Unnið er að nýrri landbúnaðarlöggjöf en þar er m.a. lögð aukin áhersla á dýravelferð og að efla vinnslu landbúnaðarafurða. Í nýju landbúnaðarlöggjöfinni koma einnig fram tillögurm um að setja á fót vottað sláturhús.
Tróndur greindi einnig frá skemmtilegu samstarfi kokka og bænda í Færeyjum, þar sem kokkar greiða fyrir að fá að fylgjast með slátrun og aðstoða við vinnslu kjötvarnings. Markmiðið er að bæta skilning kokka á uppruna hráefnisins og efla samstarf landbúnaðar og matarmenningar. Þetta verkefni hefur þegar vakið athygli meðal matreiðslumeistara í Færeyjum, sem vilja dýpka þekkingu sína á færeyskri matargerð og uppruna hráefnisins.
Ullariðnaður er mikilvægur þáttur í færeysku handverki. Nýtt spunaverkstæði, Spinneríið við ánna, var heimsótt, en það er lítil ullarvinnsla á Sandoy, sem vinnur að því að endurvekja færeyskan ullariðnað.
Rebekka, stofnandi ullarvinnslunnar, hefur skapað vinnu fyrir sig og föður sinn með framleiðslu á hreinu færeysku garni. Hún kom þessu verkefni á laggirnar eftir að hún áttaði sig á skorti á hreinni færeyskri ull á markaðnum. Þau feðginin keyptu gamlar vinnsluvélar frá Kanada og hafa byggt upp sína eigin vinnslu frá grunni.
Þá fóru Signý og Halldóar til Æðuvíkur, en þar býr Harriet Ólafsdóttir, ByOlafsdottir, sem hefur byggt upp ferðaþjónustu í kringum búskap sinn. Hún nýtir samfélagsmiðla til að selja plaköt af kindum og hefur selt myndir af dýrunum sínum um allan heim. Hennar aðferð er gott dæmi um nýsköpun í landbúnaði, þar sem bændur nýta aukaafurðir af búunum og auka tengsl við ferðamenn.
Harriet býður gestum einnig upp á skoðunarferð og „heimablíðni“ þar sem gestir geta borðað mat með fjölskyldunni hennar og kynnst lífi á færeyskum bóndabæ. Oftast fá gestirnir hægeldað lambakjöt, beint frá býli, kryddað með jurtum úr náttúrunni, ásamt heimaræktuðum kartöflum.
Halldóra og Signý heimsóttu Martin Dan Joensen, starfsmann Smyrilline í Færeyjum, sem hefur um árabil skipulagt ferðir til Íslands fyrir mismunandi hópa m..a eldri borgara til Austurlands. Hann hefur mikinn áhuga á að auka slík samskipti og lengja tímann sem gestir dvelja í hvoru landi fyrir sig. Halldóra og Signý bentu honum á ýmsa möguleika í afþreyingu á Austurlandi og að sama skapi fór Martin yfir allt sem hægt væri að gera í Færeyjum.
Norðurlandahúsið í Færeyjum var heimsótt og þar áttu Signý og Halldóra samtal við starfsmann í barnamenningu um þeirra listahátíð barna sem heitir Frítt Flog 2025 og fleira tengt barnamenningu. Signý sótti stjórnarfund í Norðurlanda húsinu en hún hefur setið þar í stjórn í nokkur ár.
Síðasti fundur ferðarinnar var með ræðismanni Íslands í Færeyjum, Hannesi Heimissyni. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að efla samvinnu milli landanna. Nokkur lykilatriði sem komu fram voru:
Hannes sagði einnig frá því að töluvert væri um það að ungt fólk í Færeyjum kæmi til Íslands til að fara í háskólanám, sérstaklega því sem tengist sjávarútvegsfræðum, landbúnaði og heilbrigðisþjónustu. Halldóra og Signý sögðu Hannesi frá breyttu rekstrarformi Hallormsstaðaskóla og sýndi hann því mikinn áhuga. Heimsóknin á ræðismannsskrifstofuna endaði á því að Brynja Ósk Birgisdóttir, ritari ræðismannsins, sýndi Halldóru og Signýju myndasýningu þar sem m.a. mátti sjá umfjöllun um okkar eigin austfirsku Nicoline Weywadt.
Ljóst er að ferðin var mjög gagnleg og skilaði margs konar nýjum tengslum auk þess sem eldri tengsl styrktust. Eyjarnar eru mjög snyrtilegar, byggðirnar skemmtileg blanda af gömlu og nýju og Færeyingar sjálfir einstaklega gott og skemmtilegt fólk.
Við eigum mjög margt sameiginlegt með Færeyingum, menninginuna og þjóðarsálina, nýtingu á landsins og hafsins gæðum og tungumálin okkar sem eru svo lík, en stundum ótrúlega ólík. Það voru því ákveðin vonbrigði að uppgötva að Súkkluverkstaðið hjá Gunnari væri ekki súkkulaðiverksmiðja, heldur hjólreiðaverkstæði!
Færeyingar eru miklir matgæðingar og mjög stoltir af sinni matvælaframleiðslu m.a. eldislaxi og lambakjöti og var mikil flóra skemmtilegra matsölustaða og kaffihúsa á þeim stöðum sem heimsóttir voru og mikill metnaður lagður í eldamennsku og framreiðslu.
Eftirtektarvert var að sjá hversu fjölbreytt ullarhandverkið þeirra er, allt frá hefðbundum flíkum upp í hátískuvörur. Signý og Halldóra heimsóttu m.a. Gudrun og Gudrun, Einstakt og Shisa Brand en þetta eru allt hönnunarverslanir sem vinna með færeyska ull, gömul færeysk mynstur í bland við nýja tísku. Hér má lesa meira um færeyska ull.
Heimsóknin leiddi í ljós marga spennandi möguleika í samstarfi milli Austurlands og Færeyja. Hvort sem um ræðir ferðaþjónustu, menningu eða matariðnað, eru sterkar tengingar milli svæðanna sem geta leitt til vaxandi samskipta og sköpunar nýrra tækifæra. Með réttri stefnumótun og sameiginlegri vinnu geta þessi tvö svæði stutt hvort annað í þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu, bættra viðskiptatengsla og menningarlegs samstarfs sem mun gagnast báðum þjóðum til framtíðar.
Myndir: Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Texti: Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir og Signý Ormarsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn