Í janúar er hægt að hefja nám í háskólagrunni HR á Austurlandi. Í boði eru þrjár leiðir og ein þeirra er brú úr iðnfræði í tæknifræði. Kári Snær Valtingojer fór þá leið og var mjög ánægður með námið.
Kári Snær Valtingojer lauk námi í Háskólagrunni HR á Austurlandi með góðum árangri.
„Nám í Háskólagrunni HR á Austurlandi var kjörið tækifæri fyrir mig þar sem að ég hafði alla mína skólagöngu einblínt á fagnámið og forðast bókina eins og heitan eldinn vegna mikillar lesblindu. Námið reyndist einfaldlega frábært og þvert á mínar væntingar gekk mér mjög vel í þessum bóklegu áföngum, þrátt fyrir að stunda námið með fullri vinnu. Þeir áfangar sem ég kveið mest fyrir, eins og íslenska og danska, urðu eiginlega mínir uppáhalds áfangar og upprifjun á stærðfræði og eðlisfræði reyndist líka vel. Ég þakka helst góðu gengi mínu í Háskólagrunni einstaklega góðum kennurum en að náminu loknu bauðst mér að innritast í tæknifræði vegna góðs námsárangurs,“ segir Kári Snær Valtingojer.
Kári Snær er fæddur og uppalinn á Stöðvarfirði og starfaði þar frá unglingsaldri við ýmis störf tengd fiskveiðum og vinnslu, bæði á sjó og landi. Eftir grunnskóla ætlaði hann sér að læra vélstjórn hjá Verkmenntaskólanum á Austurlandi en endaði í grunndeild rafiðna og lauk að lokum rafvirkjun frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Á þeim tíma starfaði hann í rafmagnstengdum störfum og hjá ýmsu fyrirtækjum. Hann lauk síðan sveinsprófi með góðum árangri og kláraði eftir það rafmagnsiðnfræði og rekstrariðnfræði og hlaut þar með meistararéttindi.
„Ég var á þeim tíma að reka lítið rafverktakafyrirtæki ásamt félaga mínum á Djúpavogi. Þrátt fyrir að það hafi gengið vel ákvað ég að söðla um og hóf störf á rekstrarsviði Rarik og starfa þar enn í dag við áætlanagerð. Síðan ég lauk námi í iðnfræðinni hefur mig alltaf langað að mennta mig meira á því sviði. Það hefur hins vegar reynst erfitt þar sem ég og fjölskylda mín höfum komið okkur vel fyrir á Djúpavogi og ekki raunhæft að flytja suður til að ég geti farið í nám. Nú vonast ég til að næsta skref hjá mér verði að geta lokið rafmagnstæknifræði við Háskólann í Reykjavík,“ segir Kári Snær.
Þrjár námsleiðir eru í boði við háskólagrunn HR á Austurlandi og ein þeirra er brú úr iðnfræði í tæknifræði. Iðnfræðingar sem fara þessa leið taka allar námsgreinar vorannar í tækni- og verkfræðigrunni. Megináherslan er á stærðfræði og raungreinar auk námskeiða í íslensku og öðrum tungumálum. Náminu er ætlað að tryggja að nemendur geti haldið áfram námi í HR og byggt ofan á fyrra nám. Eftir að hafa bætt við sig einni önn í háskólagrunni geta iðnfræðingarnir því farið beint í tæknifræði, lokið þar BS-gráðu og öðlast löggilt starfsheiti sem tæknifræðingur. Ef áhugi er á meira námi geta tæknifræðingar bætt við sig MSc-gráðu í verkfræði. Aðrar námsleiðir eru viðbótarnám við stúdentspróf sem hentar þeim sem vilja bæta við sig stærðfræði og raungreinum til undirbúnings fyrir háskólanám og þriggja anna nám sem veitir rétt til háskólanáms.
Hægt er að hefja nám í öllum námsleiðum nú í janúar og er umsóknarfrestur til 15. desember.
Nánar um háskólagrunn HRGréta Björg Ólafsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn