Atvinnulíf múrari iðnaður

Vinnum saman að eflingu iðnnáms

„Með samstilltu átaki atvinnulífs, ríkisvalds og sveitarfélaga var hægt að hefja uppbyggingu staðbundins háskólanáms á Austurlandi. Með svipuðum hætti er hægt að efla iðnnám landinu öllu til heilla.“

Af ýmsum ástæðum er að sjálfsögðu alvarlegt að á Íslandi geti fólk ekki sótt sér það nám sem hugur þess stendur til. Áhugi og löngun nemenda er forsenda þess að námið gangi vel. Það hlýtur því að vera metnaðarmál fyrir íslenskt samfélag að íbúar þess geti látið námsdrauma sína rætast, ekki síst þegar hugur þeirra stendur til iðnnáms sem, eins og flestir vita, hefur lengi verið áhyggjuefni að ungt fólk velji síður.

Skortur á iðnaðarmönnum

Ein meginniðurstaða rannsóknar okkar er sú að iðnmenntað fólk vantar í landshlutann. Á Austurlandi eru öflug fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði og skortur á fólki með slíka menntun er löngu þekktur. Þessi niðurstaða ætti því ekki að koma neinum sem þekkir til á óvart.

Gögnin okkar benda til að viðvarandi skortur sé á faglærðum iðnaðarmönnum, einkum vélvirkjum, rafvirkjum og smiðum, en fleiri iðngreinar voru nefndar í þessu samhengi. Einn viðmælandi okkar orðaði þetta svona:

„Það er svolítið vesen að finna góða iðnaðarmenn og það er áhyggjuefni til framtíðar. Tæknivæðingin mun aukast enn meira á næstu tíu árum og verkafólki mun fækka. Starfsmenn munu þurfa að kunna á flókinn búnað og geta viðhaldið honum.“

Undir þetta tóku fleiri viðmælendur og í þessu samhengi er rétt að taka fram að fulltrúar fyrirtækja á svæðinu höfðu jafnframt áhyggjur af skorti á endurnýjun iðnaðarmanna í landshlutanum.

Brýnt samfélagsmál

Mikið framfaraskref var stigið þegar kennsla í Háskólagrunni HR hófst í lok sumars í húsakynnum Austurbrúar á Reyðarfirði en vonir standa til að háskólanám í tæknifræði geti hafist á Austurlandi að ári. Efling iðnmenntunar hefur verið stef í umræðu um menntamál síðustu árin og líkt og niðurstöður okkar rannsóknar benda til er mjög aðkallandi að stjórnvöld og samfélagið allt taki þessi mál enn fastari tökum. Framboð á vandaðri iðnmenntun skipir miklu máli fyrir Ísland – ekki síst fyrir landshluta eins og okkar – og það skiptir máli að þegar eftirspurn er eftir náminu sé henni mætt.

Með samstilltu átaki atvinnulífs, ríkisvalds og sveitarfélaga var hægt að hefja uppbyggingu staðbundins háskólanáms á Austurlandi. Með svipuðum hætti er hægt að efla iðnnám landinu öllu til heilla.

Höfundar

Félagsfræðingur


Tinna Halldórsdóttir

[email protected]

Félagsfræðingur


Jón Knútur Ásmundsson

[email protected]

Yfirverkefnastjóri


Guðrún Á. Jónsdóttir

[email protected]