Sigfinnur Björnsson

„Það er bara allt til alls á Austurlandi og gott betur en það“

„Þessi öra tækniþróun sem sést í fjarvinnunni og fjarfundunum gerir fólki kleift að stunda sína vinnu hvar sem er í heiminum“ – Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

„Austurbrú er ótrúlega fjölbreyttur og skemmtilegur vinnustaður,“ segir Sigfinnur þegar hann lýsir vinnustaðnum en hann er með starfsaðstöðu á Vonarlandi, Egilsstöðum. „Ég fæst við skemmtileg verkefni á ólíkum sviðum og læri eitthvað nýtt á hverjum degi. Í fyrstu var ég ráðinn til að annast fyrirtækjafræðslu og þróun stafrænna kennslukerfa en í dag sinni ég ýmsum verkefnum sem snúa að Áfangastaðnum Austurlandi og ferðamálum í landshlutanum,“ segir hann og bætir við:

„Það sem ég hef helst verið að vinna að undanfarna daga er verkefni sem heyrir undir Matarauð Austurlands. Við sóttum um styrk í LÓU – nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina í þeim tilgangi að gera austfirsk matvæli sýnilegri í verslunum á Austurlandi. Allar matvöruverslanir landshlutans sýndu þessu mikinn áhuga og hafa lýst yfir miklum samstarfsvilja. Við vonum að með verkefninu getum við fjölgað vöruúrvali á séraustfirskum matvælum í verslunum og á sama tíma kynnt þau betur fyrir íbúum og gestum. Þá höfum við auk þess sett í loftið vef Matarauðs Austurlands þar sem má finna upplýsingar um alla veitingastaði og framleiðendur í fjórðungnum,“ segir Sigfinnur en vefinn má finna hér.