Á málþinginu „Fjölmennara Austurland“ sem fram fór á Eiðum 9. maí 2025 stigu þrír ungir Austfirðingar í pontu og deildu hugmyndum sínum um hvað þarf til að ungt fólk vilji búa og starfa á Austurlandi til framtíðar. Þar flutti Tinna Rut Hjartardóttir, sextán ára nemandi við Verkmenntaskóla Austurlands, áhrifaríkt ávarp þar sem hún lýsti tengslum sínum við heimabyggðina, draumum sínum um framtíðina og þeim skilyrðum sem þurfa að vera til staðar svo ungt fólk geti í raun séð fyrir sér að koma aftur heim. Hér má lesa erindi hennar í heild:
„Kæru Austfirðingar,
Ég heiti Tinna Rut og er sextán ára. Ég ólst upp í Neskaupstað og hef alla tíð búið þar. Í dag er ég nemandi í Verkmenntaskóla Austurlands og æfi blak af kappi. Þegar ég var yngri var ég líka á skíðum og skíðin, útivistin og fjöllin eiga sérstakan stað í hjarta mínu.
Í gegnum tíðina hef ég verið virkur þátttakandi í félagslífi, bæði í grunnskólanum, í Verkmenntaskólanum og í ungmennaráði Fjarðabyggðar o.fl. Þetta hefur kennt mér mikið og sýnt mér hvað það er mikilvægt að ungt fólk hafi rödd.
Framtíðin mín er opin. Ég veit ekki enn nákvæmlega hvað ég ætla að læra. Kannski iðjuþjálfun, kannski kennslu, sálfræði eða ljósmóðurfræði. Kannski eitthvað allt annað. En ég veit eitt: Ég ætla að fara burt eftir stúdentspróf, til að læra, sjá heiminn og prófa eitthvað nýtt.
Ég sé samt fyrir mér að koma heim aftur. Því mér þykir vænt um bæinn minn og mér finnst mikilvægt að börnin mín, þegar þar að kemur, fái að alast upp í litlu og öruggu samfélagi, rétt eins og ég.
Það sem heillar við Austurland er nándin, öryggið, náttúran, og tækifærin til að hreyfa sig og vera úti. Að geta farið á skíði með stuttum fyrirvara og þurfa ekki að eyða tíma í akstur og skutl innanbæjar.
En það eru líka áskoranir.
Við þurfum að gera betur til að laða ungt fólk að – og halda því hér. Leikskólagjöld eru að hækka. Ræktarkort og skíðapassar eru dýrir. Það mættu vera miklu fleiri afslættir fyrir ungmenni og þá meina ég ekki endilega 18 ára og yngri heldur líka fyrir ungt fólk sem er að mennta sig.
Og ég verð að nefna það líka að það er áhyggjuefni hvað margir leikskóla- og grunnskólakennarar eru að segja upp störfum. Þetta er alvarlegt mál og áhrifin koma fljótt í ljós í litlum samfélögum eins og okkar.
Svo eru það flugsamgöngurnar. Flugfargjöldin gera það erfitt fyrir unga Austfirðinga að halda tengslum við heimabæinn sinn.
Það er einfaldlega ekki eðlilegt að ungt fólk þurfi að keyra 50 eða jafnvel 70 hringi í kringum landið bara til að komast heim af því að flugmiðarnir eru svo dýrir. Við elskum Austurland – en það má ekki verða þannig að það sé dýrara að heimsækja æskuheimilið en að fljúga til útlanda.
Í lokin langar mig að segja:
Við unga fólkið viljum margt. Við viljum öryggi, við viljum tækifæri, og við viljum geta verið stolt af því að búa á Austurlandi. Við viljum líka geta keypt okkur ræktarkort án þess að þurfa að leita að aukavinnu samdægurs! Og við viljum geta heimsótt ömmu og afa án þess að þurfa að selja úr okkur nýrað til að borga flugmiðann!
Við viljum búa hér. Við viljum koma aftur heim. En þá þarf samfélagið að hlusta á okkur og skapa skilyrði sem gera drauma okkar mögulega.
Ég vil sjá framtíð þar sem ungt fólk getur hugsað: Já, ég vil búa hér! ekki bara: Æ, ég varð að flytja!“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn