Þórdís er 29 ára gömul, uppalin Skagfirðingur og útskrifuð með meistarapróf frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún fékk vinnu hjá RML að loknu námi, hafði kynnst unnusta sínum í skólanum og flutti með honum til Vopnafjarðar, þaðan sem hann er, og saman búa þau á Bustarfelli ásamt þriggja ára dóttur.

„Ég vinn aðallega í ýmsum verkefnum tengdum kynbótastarfinu,“ segir Þórdís, „en það er stór þáttur í starfsemi RML. Verkefnin mín eru þess eðlis að ég vinn fyrst og fremst við skrifborðið, er mjög lítið á vettvangi. Ég sinni mínum föstu verkefnum oft ein, en svo koma líka upp tímabundin verkefni eða þróunarverkefni sem við vinnum oft í litlum teymum, auðvitað í gegnum netið. Ég hef ekki það hlutverk að vera í beinum samskiptum við bændur, aðrir sjá um það.“

Þórdís dregur þó ekki úr því að henni finnst gaman þegar tilefni gefast til að hitta samstarfsfólk sitt í eigin persónu. „Það er auðvitað stundum erfitt að vinna ekki við hlið kollega síns,“ segir hún en Þórdís er með skrifstofuaðstoðu á Vopnafirði og deilir henni með starfsfólki annarra vinnustaða. „Þess vegna gríp ég tækifærin og reyni að mæta á fundi tengda vinnunni þegar þeir eru haldnir suður á landi,“ segir hún. „Svo eru haldnir starfsdagar einu sinni á ári, þá hitti ég alla starfsmenn RML og það er afar skemmtilegt. Þá hittir maður líka fólkið sem maður vinnur sjaldan eða aldrei með,“ segir Þórdís en neitar því ekki að ef einhver starfsstöð RML væri nær henni myndi hún eflaust nýta sér það og „mæta stundum á skrifstofuna“.

„Það eru auðvitað kostir og gallar við fjarvinnu,“ segir hún, „en það er dásamlegt að geta búið hér á Vopnafirði og unnið við það sem ég vil vinna.“