atvinna, auglýsing, austurlandi

Austurland er spennandi

„Ferðaskrifstofur eru sífellt að leitast eftir nýjum og spennandi vörum fyrir kúnnana sína og þar er Austurland að koma sterkt inn sem nýr og spennandi áfangastaður.“

Í ár eru um fjögur hundruð og tuttugu þátttakendur sem þykir vel sótt fyrir viðburð á Grænlandi. Vestnorden er árlegur viðburður sem er haldin annað hvert ár á Íslandi en þess á milli er kaupstefnan haldin til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi.

„Það gengur mjög vel,“ segir Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem sækir kaupstefnuna fyrir okkar hönd. „Ég fékk fínasta útsýnisflug yfir Nuuk þegar við lentum í glampandi sól og fimmtán stiga hita. Ég er búinn að eiga marga góða fundi með fólki alls staðar að úr heiminum en reyni svolítið að einblína á þýska markaðinn í tengslum við Condorflugið á næsta ári.“

Hann hefur á tilfinningunni að fólk sé alltaf að verða spenntara fyrir Austurlandi. „Sú uppbygging sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustu í landshlutanum hjálpar mikið til,“ segir hann. „Ferðaskrifstofur eru sífellt að leitast eftir nýjum og spennandi vörum fyrir kúnnana sína og þar er Austurland að koma sterkt inn sem nýr og spennandi áfangastaður.“

Sigfinnur telur afar brýnt að fulltrúar landshlutans sæki ferðakaupstefnuna Vestnorden. „Við þurfum að hafa rödd á svona viðburðum. Hér eru margar stórar ferðaskrifstofur og ferðasalar sem senda gesti til Íslands. Sumir þekkja til Austurlands en aðrir ekki og þá er nauðsynlegt fyrir okkur að vera sýnileg og segja frá öllu því frábæra sem Austurland hefur upp á að bjóða. Það er mikil samkeppni um ferðamenn á Íslandi og því nauðsynlegt að við höldum fólki upplýstu um landshlutann, myndum tengsl og viðhöldum sambandi við aðila sem senda ferðamenn til landsins,“ sagði Sigfinnur sem kemur heim á föstudaginn.

Nánari upplýsingar


Sigfinnur Björnsson

470 3812 // [email protected]