Hvatasjóður Seyðisfjarðar úthlutar í dag 55 milljónum til 26 verkefna tengdum atvinnuuppbyggingu í byggðalaginu. Þetta er þriðja og síðasta úthlutun sjóðsins en hann er stærsti einstaki þáttur Seyðisfjarðarverkefnis stjórnvalda, Múlaþings og Austurbrúar sem hófst í ársbyrjun 2021 í kjölfar skriðufallanna í byggðalaginu í desember 2020.
Eins og fyrri tvö ár Hvatasjóðsins einkenndust umsóknir af miklum metnaði en í ár bárust alls 39 umsóknir sem er mesti fjöldi sem borist hefur í sjóðinn.
Upplýsingar um þau verkefni sem hlutu stuðning úr Hvatasjóði í ár má finna hér
„Þessi úthlutun er til marks um að mikill kraftur, metnaður og skapandi hugsun einkennir atvinnulíf Seyðfirðinga. Styrkirnir miða að því að veita stuðning til að ýta verkefnum úr vör og því getur liðið tími frá því að þeir eru veittir og þar til árangurinn er að fullu sýnilegur,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar. „Til úthlutunar eins og tvö undanfarin ár voru 55 milljónir, og því höfum við nú alls veitt 165 milljónum í stór sem smá verkefni sem miða að því að styrkja atvinnulíf á Seyðisfirði, gera það öflugra og fjölbreyttara. Það munar um slíka innspýtingu og ég er þess fullviss að hún muni skila sér í öflugra atvinnulífi.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn