Þýska flugfélagið Condor hefur ákveðið að hefja beint flug frá Frankfurt sumarið 2023 einu sinni í viku til Egilsstaða og einu sinni í viku til Akureyrar. Munu flugin hefjast í maí 2023 og standa út október. Öflugt samstarf hefur verið á milli Austurbrúar, Isavia Innanlandsflugvalla, Íslandsstofu og Markaðsstofu Norðurlands með góðum stuðningi íslenskra stjórnvalda. Er þetta fyrsta erlenda flugfélagið til að tilkynna um flug á báða vellina.
Með þessu beina flugi opnast á ný tækifæri í ferðaþjónustu á Austurlandi sem og nýja vídd í þróun ferðaþjónustu á landinu í heild. Með því að grípa tækifærin næsta sumar byggja rekstraraðilar á Austurlandi undir framtíðarsýnina um beint flug allt árið um kring til Egilsstaðaflugvallar. Condor er þekkt fyrir öflugt samstarf við ferðaskrifstofur í Þýskalandi sem þegar hafa sýnt þessari nýju flugleið mikinn áhuga.
Þýski markaðurinn er þýðingarmikill fyrir Austurland og eru gestir frá Þýskalandi ferðaþjónum á svæðinu vel kunnugir enda hefur landshlutinn til fjölda ára tekið vel á móti þeim, m.a. í gegnum Norrænu. Landshlutinn býr yfir mikilli náttúrufegurð, fjölbreyttri þjónustu, fallegum samfélögum sem eru rík af sögu, menningu og gestrisni en þetta og margt fleira er það sem laðar fólk frá Þýskalandi til Íslands í sínum frítíma.
Í vetur hefur Austurbrú lagt mikla áherslu á að vinna með hagaðilum bæði innan lands og utan að markaðssetningu Austurlands með áherslu á beint millilandaflug frá Þýskalandi. Framkvæmdastjóri Austurbrúar, Jóna Árný Þórðardóttir, fundaði í vor í Þýskalandi með fjölmörgum ferðaskrifstofum og flugfélögum þar sem áherslurnar voru kynntar og ræddar. Vel var tekið á móti Austurbrú og ljóst að áhuginn á landshlutanum er mikill. Þessi mikla vinna og áhugi samstarfs- og hagaðila leiðir til þess að Condor hefur ákveðið að hefja sölu á flugi fyrir sumarið 2023.
CondorFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn