Í gær fór fram úthlutunarathöfn Uppbyggingarsjóðs Austurlands fyrir árið 2023. Athöfnin fór fram í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði en til úthlutunar voru rétt rúmlega 57 milljónir.
Alls bárust 100 umsóknir upp á 198 milljónir en 58 þeirra hlutu styrk að þessu sinni. Það bárust 26 verkefnaumsóknir á sviði atvinnu og nýsköpunar, 29 umsóknir um styrki til menningarverkefna og 3 umsóknir lögaðila á sviði menningar um stofn- og rekstrarstyrki. Til úthlutunar voru 57,2 milljónir og fóru 25 milljónir til atvinnu og nýsköpunarverkefna, 27,2 milljónir til 29 menningarverkefna og 3 milljónir í 3 stofn- og rekstrarstyrki. Heildarkostnaður verkefnanna sem sótt var um taldi 550 milljónir.
Athöfnin fór fram í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði að viðstöddum gestum en þetta var í fyrsta sinn síðan 2019 sem athöfnin fór ekki fram í gegnum fjarfundabúnað. Nokkur erindi voru haldin og þá flutti tónlistarfólkið Ína Berglind Guðmundsdóttir og Guðmundur R. Gíslason nokkur lög.
Flutt var upptekið erindi menningar- og viðskiptaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, sem ekki átti heimangengt. Í því varð henni tíðrætt um mátt menningarlífsins á Austurlandi og sagði m.a.:
„Engum dylst sá metnaður sem einkennir menningarstarf Austfirðinga. Fjölbreytnin, krafturinn og gæðin eru allt um kring og svo sannarlega til fyrirmyndar. Maður fær það einhvern vegin á tilfinninguna að það búi í raun miklu fleiri á Austurlandi miðað við alla þá virkni sem á sér stað í menningarlífi svæðisins.“
Þá sagði Unnar Geir Unnarsson, formaður úthlutunarnefndar, nokkur orð og fagnaði því að verkefnum á sviði atvinnuþróunar hefði fjölgað síðan í fyrra. „Í ár er sérstaklega ánægjulegt að umsóknum í nýsköpunar- og atvinnuhluta sjóðsins hefur fjölgað á milli ára. Því má meðal annars þakka að starfsfólk Austurbrúar fór í markvissa kynningarvinnu um Austurland með vinnustofur og heimsóknir í fyrirtæki.“
Hann vakti líka athygli á hlutverki sjóðsins sem jöfnunartæki í íslensku samfélagi:
„Á Austurlandi er ræktað wasabi og lífrænt korn, bruggaður bjór, hér er frystihús, sláturhúsi breytt í menningarhús og tónlistarhátíð haldin í gamalli bræðslu, svona meðal annars. Það dylst engum að Austurland er í sókn, en þessi sókn er varnarleikur og hefur verið það lengi. Íbúar á Austurlandi hafa ekki jafnt aðgengi að þjónustu, afþreyingu og hráefni og aðrir á landinu, því er það hlutverk hins opinbera að jafna þennan mun. Ein af mörgum aðgerðum í þá átt er Uppbyggingarsjóður Austurlands.“
Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, gerði að umtalsefni m.a. nýsamþykkt svæðisskipulag fyrir Austurland og sagði Uppbyggingarsjóðinn mikilvægan þátt í framkvæmd þess. Þá hvatti hún styrkhafana til dáða:
„Ég get fullyrt að það fjármagn sem veitt er úr sjóðnum hér í dag mun nýtast vel og verkefnin munu án efa margfalda gildi sitt. Verkefnin munu endurspeglast í bættri þjónustu, auknu vöruúrvali, auknum lífsgæðum og auknum sýnileika fjórðungsins út á við. Verkefnin ykkar eru vitnisburður um þá miklu grósku sem er á svæðinu.“
Austurbrú óskar styrkhöfum innilega til hamingju með styrkinn og þakkar fyrir metnaðarfullar og vel unnar umsóknir. Það eru mikil forréttindi fyrir okkur starfsmenn Austurbrúar að fá að fylgjast með gróskunni í austfirsku samfélagi í gegnum umsóknirnar og einstaklega gefandi og gaman að sjá verkefnin verða að veruleika.
Lista yfir styrkhafa má finna hér.
Signý Ormarsdóttir
Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn