Flutt var upptekið erindi menningar- og viðskiptaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, sem ekki átti heimangengt. Í því varð henni tíðrætt um mátt menningarlífsins á Austurlandi og sagði m.a.:

„Engum dylst sá metnaður sem einkennir menningarstarf Austfirðinga. Fjölbreytnin, krafturinn og gæðin eru allt um kring og svo sannarlega til fyrirmyndar. Maður fær það einhvern vegin á tilfinninguna að það búi í raun miklu fleiri á Austurlandi miðað við alla þá virkni sem á sér stað í menningarlífi svæðisins.“

Þá sagði Unnar Geir Unnarsson, formaður úthlutunarnefndar, nokkur orð og fagnaði því að verkefnum á sviði atvinnuþróunar hefði fjölgað síðan í fyrra. „Í ár er sérstaklega ánægjulegt að umsóknum í nýsköpunar- og atvinnuhluta sjóðsins hefur fjölgað á milli ára. Því má meðal annars þakka að starfsfólk Austurbrúar fór í markvissa kynningarvinnu um Austurland með vinnustofur og heimsóknir í fyrirtæki.“

Hann vakti líka athygli á hlutverki sjóðsins sem jöfnunartæki í íslensku samfélagi:

„Á Austurlandi er ræktað wasabi og lífrænt korn, bruggaður bjór, hér er frystihús, sláturhúsi breytt í menningarhús og tónlistarhátíð haldin í gamalli bræðslu, svona meðal annars. Það dylst engum að Austurland er í sókn, en þessi sókn er varnarleikur og hefur verið það lengi. Íbúar á Austurlandi hafa ekki jafnt aðgengi að þjónustu, afþreyingu og hráefni og aðrir á landinu, því er það hlutverk hins opinbera að jafna þennan mun. Ein af mörgum aðgerðum í þá átt er Uppbyggingarsjóður Austurlands.“

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, gerði að umtalsefni m.a. nýsamþykkt svæðisskipulag fyrir Austurland og sagði Uppbyggingarsjóðinn mikilvægan þátt í framkvæmd þess. Þá hvatti hún styrkhafana til dáða:

„Ég get fullyrt að það fjármagn sem veitt er úr sjóðnum hér í dag mun nýtast vel og verkefnin munu án efa margfalda gildi sitt. Verkefnin munu endurspeglast í bættri þjónustu, auknu vöruúrvali, auknum lífsgæðum og auknum sýnileika fjórðungsins út á við. Verkefnin ykkar eru vitnisburður um þá miklu grósku sem er á svæðinu.“

Nánari upplýsingar:


Signý Ormarsdóttir

864 4958 // [email protected]


Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]