Dagmar Ýr Stefánsdóttir hefur verið ráðin til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Austurbrúar. Hún tekur við starfinu af Jónu Árnýju Þórðardóttur, sem hefur sinnt því síðan 2014.
Dagmar er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Síðan 2013 hefur hún starfað sem yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli. Þar hefur hún m.a. haft umsjón með samskiptum við hagsmunaaðila, útgáfu samfélagsskýrslu, viðburðarstjórnun, gerð auglýsingaefnis ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn fyrirtækisins og sinna verkefnum því tengdu, s.s. mannauðsmálum og rekstri. Áður starfaði Dagmar sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hjá Háskólanum á Akureyri í fimm ár og var þar áður fréttamaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu N4 í eitt ár.
Hún er fulltrúi í háskólaráði Háskólans á Akureyri og situr í stjórn Stapa lífeyrissjóðs. Auk þess hefur Dagmar setið í fagráði Uppbyggingarsjóðs Austurlands, Hvatasjóðs Seyðisfjarðar, heimastjórn Fljótsdalshéraðs, verið fulltrúi í stjórn Álklasans að viðbættri þátttöku í ýmsum fjölbreyttum samstarfs- og samráðsvettvöngum á svæðis- og landsvísu.
Dagmar er fjörutíu og eins árs gömul og uppalin í Merki í Jökuldal. Hún hefur lengst af búið á Egilsstöðum en bjó um tíma á Akureyri þar sem hún stundaði nám og starfaði síðar við Háskólann á Akureyri, eins og þegar hefur komið fram. Eiginmaður hennar er Guðmundur Hinrik Gústavsson og saman eiga þau tvo drengi, þrettán og sjö ára. Hennar áhugamál eru hreyfing og útivist auk þess sem hún nýtur þess að fara í leikhús og sækir tónleika við öll gefin tækifæri.
„Ég er virkilega spennt að takast á við þetta verkefni,“ segir Dagmar Ýr. „Það eru forréttindi að taka við svona starfi og breiða út fagnaðarerindið um Austurland. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum með starfsfólkinu og stjórnum Austurbrúar og SSA til að gera Austurland að enn betri stað til að búa á og heimsækja.“
Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA og stjórnar Austurbrúar, fagnar ráðningunni og segir að mikil sátt ríki um hana. „Jóna Árný, fráfarandi framkvæmdastjóri, var einstaklega öflug í sínu starfi og skilar af sér góðu búi. Stjórn SSA og Austurbrúar er sannfærð um að Dagmar Ýr sé rétta manneskjan til að taka við af henni. Hugmyndir hennar samrýmast framtíðarsýn okkar, eins og hún birtist í Svæðisskipulagi Austurlands, og hún hefur réttu þekkinguna og reynsluna til að stýra Austurbrú áfram til góðra verka.“
Áætlað er að Dagmar Ýr komi til starfa hjá Austurbrú í júní.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn