Eygló er samstarfsverkefni um eflingu hringrásarhagkerfis, orkuskipta og nýsköpunar á Austurlandi.
Skrifað var undir samstarfssamning þess efnis í Fljótsdalsstöð milli Landsvirkjunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Austurbrúar og sveitarfélaga á Austurlandi; Múlaþings, Fjarðarbyggðar, Fljótdalshrepps og Vopnafjarðarhrepps þann 3. febrúar 2023.
Heitið Eygló vísar til öflugasta orkugjafans, sólarinnar, og til bjartrar og kraftmikillar framtíðar. Verkefnið er til fjögurra ára og nemur fjárframlag stofnaðila alls 240 milljónum króna. Meginmarkmið Eyglóar er að efla nýsköpun og þróun, með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun. Þetta styður við vöxt sprotafyrirtækja og fjölgar tækifærum til þátttöku í alþjóðlegum rannsókna- og þróunarverkefnum í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.
Stjórn Eyglóar: Vala Valþórsdóttir frá Landsvirkjun, Kjartan Ingvarsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Dagmar Ýr Stefánsdóttir frá Austurbrú.
Samstarf fyrirtækja og opinberra aðila
Ætlunin með Eygló er að leiða saman aðila til að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum. Með auknu samstarfi fyrirtækja og opinberra aðila er ýtt undir verkefni sem byggja á verðmætasköpun úr vannýttu hráefni, bæði úr því sem er til staðar og því sem verður til vegna nýrra verkefna eða framleiðslu.
Starfsmenn Eyglóar eru Eva Mjöll Júlíusdóttir (framkvæmdastjóri) og Guðmundur Helgi Sigfússon.
Helstu áherslur
Markmið
Helstu áherslur
- Greiða leið nýsköpunar og stuðla við samvinnu
- Greining hindrana og benda á lausnir
- Öflun verkefna á Austurlandi
- Umsjón nýsköpunarverkefna
- Söfnun og greining upplýsinga
- Samvinna og samstarf um þróunarverkefni á landsvísu
Markmið
- Vinna að hringrás orku í orkuskiptum og skapa verðmæti úr vannýttum hliðarstraumum og innviðum.
- Horfa til nýtingar á glatvarma frá iðnaði og fléttun hliðarstrauma inn í ný verkefni.
- Vinna að þróun og tækni tengt húshitun á köldum svæðum
- Vinna að tækifærum til líf- og rafeldsneytisframleiðslu sem styður við nýsköpun og þróun í landshlutanum.
- Styðja við vöxt sprotafyrirtækja á áherslusviðí verkefnisins.
- Taka þátt í að byggja upp getu og tækifæri á svæðinu til þátttöku í alþjóðlegum rannsóknar- og þróunarverkefnum í samstarfi við starfandi fyrirtæki.
- Stuðla að bættum innviðum sem styðja við framtíðarsýn svæðisins um aukna nýtingu á endurnýjanlegri orku og orkuskipti.
- Stuðla að kolefnishlutleysi Austurlands.
Samstarfsaðilar í öðrum landshlutum
Eygló er fjórða svæðisbundna samstarfsverkefnið sem Landsvirkjun og samstarfsaðilar hafa komið á fót. Hin eru:
Orkídea – samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Blámi – Landsvirkjun, Vestfjarðastofa og Orkubú Vestfjarða hafa sett á laggirnar samstarfsverkefni um orkuskipti og orkutengda nýsköpun.
Eimur – Nýsköpunarverkefnið EIMUR er samstarfsverkefni sem hefur bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi að leiðarljósi.