Fimm austfirsk ferðaþjónustufyrirtæki kynntu í gær nýjungar í afþreyingu og gistingu á Ferðaþjónustuvikunni sem stendur í Reykjavík frá 16.-18. janúar. Kynningarnar eru lokahnykkur Straumhvarfa en það er vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu sem er ætlað fyrirtækjum á Norður- og Austurlandi í ferðaþjónustu, svo og fulltrúum sveitarfélaga.
Það voru Blábjörg á Borgafirði eystra, Tanni travel, Eskifirði, East Fjord Adventures/Tækniminjasafnið á Seyðisfirði, Ferðaþjónustan Mjóafirði og Adventura á Djúpavogi sem kynntu gönguferðir, gistingu og samsettar ferðir fyrir fulltrúum ferðaskrifstofa, ferðaheildsala og flugfélaga. Kynningin var í aðdraganda Mannamóta, stærstu ferðakaupstefnu landsins, sem Markaðsstofur landshlutanna standa að í janúar ár hvert. „Þátttaka í verkefninu Straumhvörf hefur verið kærkomið tækifæri fyrir einyrkja í litlu fyrirtæki til að ráðfæra sig við aðra í svipuðum rekstri, spegla hugmyndir og fá ráðgjöf og álit fagfólks,” segir Berglind Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Adventura. Díana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Tanna Travel tekur í sama streng: „Það vantar ekki hugmyndir en oft vantar stundina og staðinn til að þær verði að einhverju meiru. Með Straumhvörfum erum við að koma hugmynd á blað, í samstarf og til kynningar. Það er spennandi tækifæri.”
Tilgangur Straumhvarfaverkefnisins er að þróa framboð í ferðaþjónustu og nýta tækifæri sem felast í millilandaflugi til Norður- og Austurlands. Að verkefninu standa Austurbrú/SSA, Markaðsstofa Norðurlands, SSNV og SSNE en það er stutt af Byggðastofnun.
Straumhvörf hófust haustið 2023 með fjórum vinnustofum á Blönduósi, Eyjafirði, Bakkafirði og Egilsstöðum og tóku þátt um 50 fyrirtæki í ferðaþjónustu, þar af rétt rúmlega 20 austfirsk. Átta fyrirtæki sóttust eftir því að kynna í framhaldinu nýjungar í framboði á afþreyingu og gistingu. Þar af voru fimm frá Austurlandi.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn