Fimmtudaginn 18. janúar fóru fram Mannamót Markaðsstofa landshlutanna í Kórnum, Kópavogi. Þetta er í tíunda skiptið sem Markaðsstofur landshlutanna taka höndum saman og setja upp þessa mögnuðu ferðakaupstefnu sem hægt og bítandi hefur orðið einn af hápunktum ársins í ferðaþjónustunni á Íslandi.
Mikill áhugi á Mannamótum hefur skapast meðal austfirskra ferðaþjóna undanfarin ár og hafa þátttakendur frá Austurlandi aldrei verið fleiri. Að þessu sinni voru 31 þátttakandi skráðir til leiks, þar af þrjú sveitarfélög og bæjarfélagið Breiðdalsvík sem kynnti vörur og þjónustu þeirra fjölmörgu þjónustufyrirtækja sem þar starfa.
Austurland hefur lagt mikla áherslu á að vera áberandi á Mannamótum með samræmdu útliti og hefur austfirski gangurinn hlotið verðskuldaða athygli ár eftir ár.
„Mannamót eru gífurlega mikilvægur viðburður fyrir austfirsk ferðaþjónustufyrirtæki sem og í raun öll ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni,“ segir Sigfinnur Björnsson hjá Austurbrú og einn skipuleggjenda Mannamóta. „Tæplega þúsund gestir lögðu leið sína í Kórinn í síðustu viku og kynntu sér þær frábæru vörur sem ferðaþjónusta utan höfuðborgarsvæðisins hefur upp á að bjóða. Stærsti hluti gesta vinnur hjá íslenskum ferðaskrifstofum sem flytja ferðamenn inn til landsins í stórum stíl en sömuleiðis höfum við verið að sjá aukningu meðal erlendra ferðaskrifstofa á milli ára. Þannig gefst ferðaþjónustufyrirtækjunum okkar tækifæri á að komast í beint samband við stóra aðila, bæði innlenda og erlenda, án allra milliliða,“ segir hann.
Eins og Sigfinnur segir var metþátttaka meðal austfirskra fyrirtækja í ár. Sumir voru að mæta í fyrsta skipti en svo líka aðrir „gamlir refir“ sem aldrei hafa látið sig vanta. Þar má t.d. nefna Arngrím Viðar Ásgeirsson hjá Álfheimum og Hótel Stuðlagili.
„Það var fín mæting og gott rennsli yfir daginn,“ segir Arngrímur, „og Austurland fékk verðskuldað hrós fyrir samræmt útlit. Þetta er mjög mikilvægur viðburður og markar upphafið á nýju ferðaþjónustuári. Á Mannamótum gefst okkur tækifæri að eiga samtal við ráðherra og stóra aðila innan ferðaþjónustunnar s.s. forstjóra Icelandair og erlendar ferðaskrifstofur. Þar er hægt að fá innsýn inn í stefnur og strauma ferðaþjónustunnar því það eru alltaf nýjar áherslur á hverju ári.“
Unnur Sveinsdóttir, nýr rekstraraðili Steinasafns Petru, var að mæta á Mannamót í annað sinn og hafði talsverðar væntingar: „Í stuttu máli skráði ég mig í þeim tilgangi að styrkja tengslanetið. Mig langaði að styrkja tengsl og mögulega mynda ný við ferðaþjónustuaðila í næsta nágrenni við mig hér fyrir austan. Já, og mig langaði líka að hitta fólk úr geiranum sem starfar utan landshlutans s.s. fulltrúa ferðaskrifstofa og þess háttar.“
Hún segir Mannamót hafa staðist væntingar og að það hafi verið mikil upplifun að vera þarna með kollegum úr landshlutanum. „Eins og kannski einhverjir vita hefur „Austurlandsgangurinn“ á Mannamótum verið mjög flottur síðustu árin. Við erum með samræmt útlit á öllum básunum og maður fær á tilfinninguna að við séum öflugur og samheldinn hópur sem getur unnið saman. Ég vona að gestir Mannamóta hafi upplifað þetta eins og að þeir sjái Austurland sem eina og sterka heild.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn