Það verður nóg um að vera í tengslum við barnamenningarhátíðina BRAS í lok apríl en þá verða viðburðir um allt Austurland þar sem tónlistarframlagi Prins Póló verða gerð góð skil. Stýrihópur BRAS hittist sl. þriðjudag í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði til skrafs og ráðagerða og líka til að hefja skipulagningu sjöttu BRAS-hátíðarinnar sem fram fer um allt Austurland í haust.
Í stýrihópnum sitja fulltrúar frá Austurbrú, Menningarstofu Fjarðabyggðar, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Skaftfelli, Minjasafni Austurlands og Bókasafni Héraðsbúa auk menningarfulltrúa Vopnafjarðarhrepps, Fjarðabyggðar og Múlaþings. Þá voru fundinum fulltrúar leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla, ýmist á staðnum eða í gegnum Teams.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri BRAS, hóf fundinn með yfirferð á sögu verkefnisins en uppruna BRAS má rekja aftur til ársins 2017 þegar haldið var málþing á Austurlandi um barnamenningu sem bar yfirskriftina Kúltiveraðir krakkar. Fyrsta BRAS-hátíðin var haldin 2018 og hefur verið haldin árlega æ síðan.
Á fundinum var farið yfir niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir þátttakendur síðasta árs en sambærilegar kannanir hafa verið lagðar fyrir síðan 2019. Niðurstöðurnar eru ætíð nýttar við skipulagningu hátíðarinnar en að lokinni kynningu voru þær ræddar. Umræðurnar voru einkar gagnlegar og snerust m.a. um samstarf á milli stofnana á Austurlandi við framkvæmd hátíðarinnar og hvernig því beri að hátta svo hátíðin gagnist sem flestum börnum og ungmennum á Austurlandi.
„Stýrihópurinn er mjög spenntur fyrir komandi hátíð og hlakkar til að hlúa áfram að barnamenningu á Austurlandi þannig að öll börn og ungmenni geti notið listar og menningar í sinni heimabyggð, óháð aldri, kyni, uppruna, móðurmáli og búsetu. Börn og ungmenni verði áfram hvött til að Þora! Vera! Gera!“ segir Halldóra Dröfn.
Næstu verkefni stýrihópsins snúa m.a. að fjármögnun hátíðarinnar með tilheyrandi umsóknarskrifum og þar fram eftir götunum. Unnið er að því að þróa áfram samstarf við austfirskt listafólk, við List fyrir alla og við erlenda listamenn sem hafa sýnt hátíðinni áhuga. Og síðast en ekki síst er unnið að lokahnykk síðustu hátíðar sem verður núna í lok apríl, í kringum afmælisdag Svavars Péturs Eysteinssonar (Prins Póló). Þá verður mikið húllumhæ um allt Austurland en dagskráin verður auglýst fljótlega. Stýrihópurinn telur samt óhætt að mæla með því að Austfirðingar taki frá sumardaginn fyrsta! Þá verði mikið húllumhæ um allt Austurland!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn