Austurbrú heimsótti skrifstofur Nordregio í Stokkhólmi dagana 3. til 5. apríl og átti góðan fund með stjórnendum og starfsmönnum þar á bæ sem kynntu fyrir Austurbrú umfang og áherslur starfseminnar. Nordregio er rannsóknastofnun um byggðaþróun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og tilgangur heimsóknarinnar var að leggja drög að frekara samstarfi stofnunarinnar við Austurbrú.
Í heimsókninni fengum við að kynnast helstu verkefnum og áherslum í rannsóknarstarfsemi Nordregio auk þess sem Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, kynnti Austurbrú, helstu verkefni hennar, svæðisskipulagið auk þess sem hún sagði frá landshlutanum en Austurland er álíka stór og Skánn, syðsta hérað Svíþjóðar, þar sem búa tæp ein og hálf milljón íbúa í þrjátíu og þremur sveitarfélögum.
Tilgangurinn með heimsókninni var að vega og meta hvort Austurbrú gæti verið Nordregio innan handar í ákveðnum rannsóknarverkefnum, t.d. með beinni þátttöku í verkefnum, með því að aðstoða við gagnaöflun og tengslamyndun innan Austurlands, aðstoða við dreifingu upplýsinga og þá er mögulegt að Nordregio gæti í framtíðinni tekið á móti nemendum eða fræðafólki frá Austurlandi sem vinnur að metnaðarfullum byggðarannsóknum.
Dagmar Ýr var að vonum ánægð með heimsóknina:
„Við hjá Austurbrú erum afar þakklát Nordregio fyrir að taka vel á móti okkur í glæsilegum húsakynnum sínum í Stokkhólmi,“ segir hún. „Samhljómurinn milli Austurbrúar og þeirrar vinnu sem Nordregio innir af hendi var mikill og ljóst að samstarfstækifærin liggja víða. Við hlökkum til að skoða í framhaldinu hvar Austurbrú og Nordregio geta tengst í gegnum byggðarannsóknir og deilt þekkingu og hugmyndum sín á milli. Þá er ljóst að Austurbrú getur verið tengiliður Nordregio fyrir rannsóknir á dreifðum byggðum á Íslandi og við hlökkum til frekara samstarfs.“
Að lokinni heimsókn til Nordregio bauðst hópnum frá Austurbrú að heimsækja starfsemi fyrirtækisins Candela en það framleiðir nýja gerð af rafmagsbátum sem sveitarfélagið Stokkhólmur hyggst nýta í almenningssamgöngur. Starfsmenn Austurbrúar fengu stuttan túr með slíkum bát og er óhætt að segja að þeim hafi fundist mikið til koma! Bátarnir verða teknir til almennrar notkunar á næstu mánuðum og það verður spennandi að sjá hvernig þeir nýtast Svíum.
Þá var tekið á móti hópnum á einni af skrifstofum Stokkhólmssvæðisins þar sem ferðalangarnir fengu kynningu á svæðisskipulagi og þá fékk hópurinn kynningu á verkefni sem snýr að ungu fólki og hvernig það er virkjað til samfélagsþátttöku.
Efst í fréttinni er mynd af austfirska hópnum ásamt starfsfólki Nordregio. Fyrir hönd Austurbrúar fóru Alda Marín Kristinsdóttir, Arnar Úlfarsson, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Gabríel Arnarsson, Jón Knútur Ásmundsson, Urður Gunnarsdóttir og Valborg Ösp Á. Warén. Ferðalagið var styrkt af Erasmus+ sem er hluti af styrkjaáætlun ESB.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn