Upplýsingar um Austurland
Í tengslum við markaðssetningu og kynningarstarf á Austurlandi höldum við úti ferðavefnum VisitAusturland.is, bæði á íslensku og ensku. Þar er leitast við að kynna alla okkar markverðustu áfanga- og náttúruskoðunarstaði auk þeirrar fjölbreyttu þjónustu sem landshlutinn býður upp á. Samstarfsaðilar Austurbrúar fá sérskráningu fyrir sína þjónustu inni á gagnagrunni Ferðamálastofu og stýra sjálfir þeim upplýsingum sem þar birtast. Gagnagrunnur Ferðamálastofu er undirstaða stærstu ferðavefja Íslands og samstarfsaðilar Austurbrúar fá sínar skráningar því ekki einungis birtar á landshlutavef Austurlands, heldur einnig á stórum ferðavefjum á borð við VisitIceland.is og Ferdalag.is.
Samkvæmt rannsókn Ferðamálastofu leita um 40% ferðamanna sér upplýsinga á opinberum vefsíðum eins og VisitAusturland.is þegar þeir eru komnir til landsins og 45% ferðamanna leita sér innblásturs á Visit vefsíðum fyrir heimsóknir til áfangastaða. Það er því mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera sýnileg á þessum vefum og með réttar upplýsingar skráðar. Efni vefsins er uppfært reglulega og þar birtast m.a. fréttir sem skrifaðar eru út frá ákveðnum þemum sem miða að því að hvetja gesti landshlutans til að dvelja sem lengst og njóta þjónustu og upplifana sem eru í boði hverju sinni. Þar er einnig að finna upplýsingar um ferðaleiðir í landshlutanum og almennar leiðbeiningar um hvað beri að hafa í huga þegar ferðast er til Íslands á mismunandi tímum árs. Visit Austurland er virkt á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram, þar sem leitast er við að deila grípandi efni sem vekur áhuga ferða- og heimamanna og hvetur þá til að heimsækja svæðið og kynna sér áhugaveðra staði.
Ferðasýningar
Ferðasýningar og vinnustofur eru stór þáttur í markaðssetningu Austurlands. Á slíkum viðburðum gefst starfsmönnum Austurbrúar tækifæri til þess að kynna landshlutann sem vænlegan áfangastað ferðamanna í beinu samtali við innlendar jafnt sem erlendar ferðaskrifstofur. Austurbrú, undir merkjum Visit Austurland, sækir vinnustofur og ferðasýningar fyrir hönd landshlutans og samstarfsfyrirtækja stofnunarinnar. Það er mikilvægt að Austurland eigi fulltrúa á ferðasýningum og vinnustofum og geti haldið áhugasömum aðilum upplýstum um framþróun ferðaþjónustu í landshlutanum. Samstarfsaðilar að Austurlandi* njóta góðs af viðveru Austurbrúar á slíkum viðburðum þar sem komið er á viðskiptatengslum á milli áhugasamra ferðaskrifstofa og samstarfsfyrirtækja Austurbrúar.
Austurbrú hefur vanið komur sínar á tvær ferðasýningar sem haldnar eru ár hvert, þ.e. Mannamót og Vestnorden. Mannamót eru stærsti ferðaviðburður á Íslandi og hefur þátttaka austfirskra ferðaþjónustufyrirtækja verið til fyrirmyndar undanfarin ár. Vestnorden er samstarfsverkefni Visit Iceland, Visit Faroe Islands og Visit Greenland og er haldin annað hvert ár á Íslandi og til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi þess á milli.
Icelandair stendur fyrir ferðakaupstefnunni Mid-Atlantic annað hvert ár í Reykjavík og hefur Austurbrú sótt viðburðinn fyrir hönd Austurlands ásamt ferðaþjónustufyrirtækjum úr landshlutanum.
Vinnustofur
Austurbrú hefur ásamt Visit Iceland setið vinnustofur víðs vegar um Evrópu þar sem tækifæri gefst á dýpra samtali við ferðaskrifstofur og fara yfir allt það helsta sem landshlutinn hefur upp á að bjóða. Vinnustofurnar eru frábrugðnar ferðasýningum að því leyti að þar er einungis verið að tala við einn markhóp, þ.e. einungis ferðaskrifstofur frá því landi sem vinnustofan er sótt. Þannig hefur Austurbrú undanfarin ár tekið þátt í vinnustofum í bæði Þýskalandi og Bretlandi og náð góðri tengingu við þessa tvo lykilmarkaði.
Aðrar ferðasýningar
Austurbrú hefur tekið þátt í fjölmörgum ferðasýningum í gegn um árin en hafa þó ekki vanið komur sínar þangað árlega. Þar ber helst að nefna ITB Berlin í Þýskalandi og World Travel Market í London sem eru tvær af stærri ferðasýningum Evrópu.
Á þessum sýningum er Austurbrú hluti af stoðteymi Íslandsstofu og tekur að sér ýmis verkefni meðfram því að kynna Austurland fyrir áhugasömum aðilum.
Viltu taka þátt?
Samstarfsaðilum að Austurlandi* gefst kostur á að sækja ferðasýningar og vinnustofur á vegum Íslandsstofu. Þá er ferðasýningin Mannamót samstarfsverkefni Markaðsstofa landshlutanna og er samstarfsaðild við Austurbrú (eða markaðsstofu þíns landshluta) skilyrði fyrir þátttöku.
Hafðu samband ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða langar að vita meira um þátttöku í vinnustofum og ferðasýningum.

Nánari upplýsingar veitir:
Lilja Sigríður Jónsdóttir
Blaðamannaferðir, ljósmyndarar og áhrifavaldar
Á hverju ári skipuleggjum við blaðamannaferðir, heimsóknir áhrifavalda og ljósmyndaverkefni víðsvegar um Austurland í samstarfi við Íslandsstofu, sveitarfélögin og samstarfsaðila í ferðaþjónustu. Markmiðið er ávallt að kynna landshlutann sem spennandi áfangastað með fjölbreyttri þjónustu og afþreyingu allt árið um kring, með sérstakri áherslu á Austurland að vetrarlagi síðustu ár.
Við höfum skipulagt heimsóknir blaðamannahópa frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, auk þess að taka á móti sérhæfðum fjölmiðlum, t.d. í tengslum við sjónvarpsþætti, beint flug til svæðisins, matarmenningu Austurlands og útivist. Einnig höfum við átt gott samstarf við áhrifavalda og ljósmyndara í fjölbreyttum verkefnum, þar á meðal Rúrik Gíslason, Chris Burkard, Þráin Kolbeinsson og Gunnar Frey Gunnarsson.
Útgáfa markaðsefnis
Austurbrú annast framleiðslu á ýmsu markaðs- og kynningarefni fyrir landshlutann. Á tveggja ára fresti er Austurlandskortið, vasakort með helstu upplýsingum um áhugaverða áfanga- og viðkomustaði og þjónustu, gefið út og er því dreift með reglubundnum hætti yfir árið um allt land. Destination Guide-inn þjónar sem yfirlit yfir allt það helsta sem ferðaskrifstofur hérlendis og erlendis þurfa að vita um landshlutann og hann fer alltaf með okkur á ferðasýningar og vinnustofur, bæði í enskri og þýskri útgáfu.
Samræmt útlit landshlutans á ferðasýningunni Mannmótum, sem Austurbrú heldur í samstarfi við markaðsstofurnar í hinum landshlutunum í janúar ár hvert og er stærsti vettvangur ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni, er unnið af okkar fólki innanhúss og vekur jafnan mikla og jákvæða athygli gesta. Við vöndum okkur við að vera sýnileg á mismunandi miðlum, allt eftir því til hvaða markhóps við þurfum að ná til, og reglulega birtast auglýsingar, fréttaskot, greinar og myndefni á okkar vegum á vef- og samfélagsmiðlum, prentmiðlum, útvarpi og sjónvarpi.
Nánari upplýsingar

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

Urður Gunnarsdóttir

Alexandra Tómasdóttir

Lilja Sigríður Jónsdóttir