Ferðasýning landsbyggðarinnar
Mannamót er árleg ferðakaupstefna haldin af markaðsstofum landshlutanna. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur farið ört vaxandi undanfarin ár. Mannamót hafa undanfarin ár verið haldin í Kórnum, Kópavogi á fimmtudegi um miðbik janúar. Viðburðurinn hefur verið í mikilli þróun og hefur sérstök ferðaþjónustuvika nú verið sniðin að Mannamótum. Ferðaþjónustuvikan samanstendur af fjölbreyttum viðburðum ætlaða ferðaþjónustuaðilum og hefst á þriðjudegi.
Markmið og tilgangur Mannamóta er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir stórum ferðaþjónustuaðilum bæði innlendum og erlendum. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamótum gefst kostur á kynna sér það sem mismunandi landshlutar eru að bjóða uppá.
Sýnendur á Mannamótum eru því eingöngu fyrirtæki af landsbyggðinni og eru þau skilyrði gerð að þau séu samstarfsaðilar að markaðsstofu síns landshluta.
Austurland á Mannamótum
Austurland hefur hlotið verðskuldaða athygli á Mannamótum vegna heildrænds útlits sem að landshlutinn skartar. Mikið kapp er lagt í það að ferðaþjónar frá Austurlandi nýti sér sameiginlegt markaðsefni á ferðasýningunni svo að enginn vafi liggi á meðal gesta hvaðan fyrirtækin séu.
Að sýningu lokinni hefur sú hefð skapast að austfirskir ferðaþjónar og verkefnastjórar Austurbrúar fari saman út að borða, geri upp daginn og eigi saman notalega stund. Fyrir suma er kvöldverðurinn eftir sýninguna jafn mikilvægur og sýningin sjálf þar sem þeim gefst tækifæri til að styrkja tengslanet sitt innan landshlutans og kynnast kollegum sínum í greininni enn betur.