Í október hafa um 320 nemendur úr grunnskólum af öllu Austurlandi sótt Sláturhúsið á Egilsstöðum heim og séð leiksýninguna Kjarval í uppsetningu Borgarleikhússins. Leiksýningin byggir að hluta til á verðlaunabók Margrétar Tryggvadóttur um listamanninn þar sem er leitast við að draga upp mynd af drengnum, manninum og málaranum Kjarval.
Leiksýningin er hluti af stærra verkefni, Kjarval á Austurlandi, sem samanstendur af minjasýningu og sýningu á verkum hans. Minjasýningin, sem er á vegum Minjasafns Austurlands, var opnuð í september síðastliðnum í Sláturhúsinu og mun standa fram á næsta haust. Sýning á verkum Kjarvals verður svo opnuð næsta sumar í Skaftfelli á Seyðisfirði.
Hanna Christel Sigurkarlsdóttir er hönnuður sýningar Minjasafnsins og verkefnastjóri: „Þetta er heljarinnar verkefni sem aðstandendur eru mjög stoltiraf og viljum við þakka Borgarleikhúsinu sérstaklega fyrir frábært samstarf. Einnig viljum við þakka öllum þeim sjóðum og fyrirtækjum sem styrktu bæði minja- og leiksýninguna og kostuðu rútur svo að nemendur alls staðar úr fjórðungnum gætu komið og notið sýninganna.“
Þess má geta að á meðal samstarfs- og styrktaraðila er BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og Uppbyggingarsjóður Austurlands.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn