Önnur staðlota Austanáttar var haldin á Borgarfirði eystri þann 16. október. Að þessu sinni unnu þátttakendur með hvernig best væri að kynna og segja frá hugmyndinni sinni við ólíkar aðstæður.
Vinnustofuna á Borgarfirði eystri leiddi Bandaríkjamaðurinn R. Michael Hendrix sem á að baki feril sem einn af stjórnendum IDEO en hún er ein virtasta hönnunarstofa heims. Hann útskýrði fyrir þátttakendum að á tímum stafrænna samskipta hefði samkeppnin um athygli fólks aldrei verið harðari. Því þyrfti að huga vel að því hvernig við kveikjum áhuga þeirra sem við viljum ná til.
Michael deildi með þátttakendum skemum og sögueiningum sem hægt væri að nota við ólíkar aðstæður og frumkvöðlarnir unnu saman að því að meitla frásagnir sínar. Inn á milli fengu þátttakendur að kynnast nýsköpun og sköpunargleði á Borgarfirði. Ragna Óskarsdóttir, stofnandi Íslensks dúns, veitti góð ráð og þátttakendur kynntu sér þær breytingar sem eru að verða á félagsheimilinu Fjarðarborg þar sem er að verða til samvinnurými.
Vaxtarrýmið Austanátt er átta vikna ferli fyrir einstaklinga eða teymi sem vilja þróa áfram hugmyndir sem skapa verðmæti á Austurlandi. Í vaxtarrýminu gefst hugmyndasmiðum færi á að tengjast öðrum frumkvöðlum, fá ráðgjöf frá reyndum sérfræðingum og fræðslu s.s. um markaðssetningu, hönnunarhugsun, fjármögnun og önnur hagnýt atriði til nýsköpunar.
Þriðja og síðasta lotan verður á Egilsstöðum þann 6. nóvember.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn