Færni á vinnumarkaði útskrift.

Aðkoma samstarfsaðila var vel skilgreind í verkefninu. Sveitarfélög og félagsþjónusta veittu stuðning við færniþjálfun í samstarfi við Vinnumálastofnun og fyrirtæki. Vinnumálastofnun sá um hæfnigreiningar og val á störfum. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Fjölmennt þróuði námskrár, námsefni og kennslufræðinámskeið en fræðslu- og símenntunarstöðvar héldu utan um framkvæmdina á hverju svæði.

„Við á Austurlandi erum gríðarlega heppin með það hversu mörg fyrirtæki og stofnanir eru tilbúin til að gefa einstaklingum, sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun, tækifæri á vinnumarkaði og aðstoða við að finna leiðir og verkefni sem henta hverjum og einum. Þetta nám byggir á slíkum velvilja og fyrir það erum við mjög þakklát sem og þeim starfstenglum sem veita nýjum starfsnemum stuðning,“ segir Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri fræðslumála hjá Austurbrú.

Námið hófst um miðjan september með sex áhugasömum nemendum frá Eskifirði og Egilsstöðum. Námið sameinaði bóklega fræðslu (70 klst.) og verklega reynslu (110 klst.) á vinnustöðum. Kennarar lögðu áherslu á samstarf, mætingu og virkni til að tryggja árangur og skemmst frá því að segja metnaður nemendanna var til mikillar fyrirmyndar.

„Við hefðum ekki getað verið heppnari með samsetningu á hópi,“ segir Úrsúla Manda Ármannsdóttir, verkefnastjóri. „Þetta voru einstaklingar sem þekktust lítið sem ekkert í upphafi en náðu einstaklega vel saman. Þarna myndaðist mikil vinátta og traust. Þær stóðu sig allar virkilega vel. Við vorum einnig mjög heppnar með kennara en við fengum Þórdísi Kristvinsdóttur í lið með okkur og leysti hún þetta verkefni vel af hendi. Hún hélt vel utan um hópinn og var oft glatt á hjalla. Einnig áttum við mjög gott samstarf með Kristínu Rut Eyjólfsdóttur hjá Vinnumálastofnun.“

Það er ekki sjálfgefið að allir útskrifist með fagbréf atvinnulífsins en þessi einstaki hópur náði því. Útskrift fór fram á Vonarlandi þar sem nemar ásamt gestum – vinum og fjölskyldum – voru samankomnir til að fagna mikilvægum áfanga.

Mynd að ofan: Nemendur og umsjónarmenn námsins. Myndin er tekin við útskrift þann 17. desember. 

Nánari upplýsingar


Úrsúla Manda Ármannsdóttir

864 4231 // [email protected]

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn