Hin árlega ferðakaupstefna Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er haldin í ellefta sinn fimmtudaginn 16. janúar í Kórnum, Kópavogi. Mannamót eru einn af lykilviðburðum Ferðaþjónustuvikunnar 2025 og skapa mikilvægan vettvang fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni til að kynna sína þjónustu fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Í ár munu 35 fyrirtæki frá Austurlandi taka þátt í Mannamótum sem er metþátttaka frá svæðinu.
Mannamót eru mikilvægur vettvangur til að efla tengslanet innan ferðaþjónustunnar og styðja við vöxt fyrirtækja á landsbyggðinni. Þar gefst þátttakendum tækifæri til að kynna vöruframboð sitt fyrir breiðum hópi fagaðila og mynda ný sambönd með tiltölulega litlum kostnaði. Aðstandendur Mannamóta eru Markaðsstofur landshlutanna, Íslenski ferðaklasinn, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Íslandsstofa.
Fyrirtækin frá Austurlandi koma víðsvegar úr landshlutanum og endurspegla þá miklu grósku sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni á svæðinu síðustu ár. Eins og undanfarin ár munu fyrirtækin mæta með samræmt markaðsefni sem styrkir ímynd Austurlands sem sterkrar heildar.
„Þetta er einstakt tækifæri fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni til að efla tengsl við ferðaþjónustuaðila í Reykjavík og styrkja núverandi sambönd,“ segir Alexandra Tómasdóttir, sem stýrir Áfangastofu Austurlands. „Við sjáum hversu mikilvæg þessi kaupstefna er fyrir Austfirðinga, ekki aðeins til að kynna þjónustuna okkar út á við, heldur einnig til að efla samheldni innan svæðisins.“
Að loknum Mannamótum mun hópurinn frá Austurlandi snæða saman og gera sér glaðan dag. „Þetta er ekki síður tækifæri til að efla tengslanetið innan okkar svæðis og þjappa hópnum saman. Þetta sýnir enn og aftur samheldnina fyrir austan,“ segir hún.
Þess má geta að Advania verður með beint streymi frá Mannamótum og mun Austurbrú sýna frá viðburðinum á samfélagsmiðlum sínum, bæði á Facebook og Instagram. Fylgjast má með helstu tíðindum þar undir merkjunum #Mannamót2025 og #Austurland.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn