Austurbrú hefur ráðið Nínu Hrönn Gunnarsdóttur sem verkefnastjóra farsældar barna. Nína, sem hefur yfirgripsmikla reynslu úr heilbrigðisþjónustu og stjórnun, mun vinna að því að efla farsæld barna á Austurlandi í samræmi við nýleg farsældarlög. Starfsstöðvar hennar verða á Egilsstöðum og Reyðarfirði.
Hlutverk Nínu felst meðal annars í að fylgja eftir innleiðingu farsældarlaganna, styðja sveitarfélög, stofnanir og þjónustuaðila við börn, og koma á svæðisbundnu samráði. Einnig mun hún starfa með hópi sem hefur unnið að öruggara Austurlandi, þar sem öryggi er skoðað út frá fjölbreyttum sjónarhornum.
„Helsta verkefnið mitt er að koma á farsældarráði fyrir Austurland, þar sem fulltrúar þjónustuveitenda, sérfræðingar og notendur munu vinna saman að áætlunum um forgangsröðun aðgerða til fjögurra ára,“ segir Nína Hrönn. „Markmiðið er að samræma verklag og gera lögin sýnilegri og aðgengilegri fyrir fagfólk, foreldra og börn.“
Nína er hjúkrunarfræðingur með diplómagráðu í heilsugæsluhjúkrun með áherslu á ungbarnavernd og meistaragráðu í stjórnun í heilbrigðisvísindum með áherslu á breytingarstjórnun. Hún er gift, fjögurra barna móðir og býr í Fellabæ ásamt eiginmanni sínum. „Ég flutti hingað austur árið 2012 og hef frá fyrsta degi heillast af þeim fjölbreyttu tækifærum sem Austurland býður upp á,“ segir hún.
Í nýju hlutverki sínu hyggst Nína leggja áherslu á að hlusta á raddir hagsmunaaðila og finna bestu leiðirnar til að leiða ólíka fagaðila að sama markmiði. Hún sér einnig tækifæri til nýsköpunar með því að nýta reynslu sína úr heilbrigðisþjónustu. „Ég tel að þrautsegja, hugmyndaauðgi og áræðni sem ég hef tileinkað mér í störfum mínum muni nýtast vel í þessu nýja hlutverki,“ bætir hún við.
Við bjóðum Nínu velkomna til starfa hjá Austurbrú.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn