Inngangur
Inngangur
Sóknaráætlun Austurlands 2025-2029 felur í sér stöðumat, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir. Sóknaráætlun er fimm ára aðgerðaáætlun og er hluti umfangsmeiri aðgerðaáætlunar Svæðisskipulags Austurlands sem gildir til 2044. Sóknaráætlun er sett fram á sama hátt og Svæðisskipulagið hvað varðar málaflokka aðgerða (sjá flokka hér að neðan).
Sóknaráætlun er unnin samkvæmt samningi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) við innviðaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti byggt á grundvelli sveitarstjórnalaga nr. 138/2011 og heimildar skv. 40. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál.
Sóknaráætlun tekur, í samræmi við 1.2 gr. samnings um áætlunina, til svæðisbundinna áherslna sem taka mið af meginmarkmiðum byggðastefnu, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.
Formleg vinna við Sóknaráætlun hófst á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, í september 2024. Þar unnu kjörnir fulltrúar að aðgerðum, byggðum á Svæðisskipulagi Austurlands og þeirri framtíðarsýn sem þar er sett fram.
Í framhaldinu voru haldnar fimm vinnustofur með faghópum þar sem tilnefndir voru hagaðilar ýmissa greina, stofnana, fyrirtækja og verkefna. Faghóparnir voru byggðir á grunni sömu hugmyndafræði og fagráð Austurbrúar; að ná þverfaglegri aðkomu aðila á Austurlandi við stefnumótun og áætlanagerð en einnig var sérstaklega leitast við að ná til yngra fólks, íbúa af erlendum uppruna og íbúa allra byggðalaga.
Afrakstur vinnu Haustþings og faghópa var dreginn saman í fyrstu drög Sóknaráætlunar sem kynnt var á opnum fundum í nóvember þar sem öllum íbúum Austurlands og þeim sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta, var boðið að taka þátt og leggja til efni eða gera athugasemdir við innihald.
Að því loknu var sóknaráætlun sett í samráðsgátt stjórnvalda þar sem allir lögaðilar og einstaklingar gátu sett sínar athugasemdir. Endanleg útgáfu Sóknaráætlunar lá fyrir í desember 2024 og var hún birt á vef Austurbrúar, Svæðisskipulags Austurlands og sveitarfélaga landshlutans.
Í sóknaráætlun 2025-2029 sem hér fer á eftir er gerð grein fyrir grunnáherslum og framtíðarsýn svæðisskipulags, stöðu Austurlands og lýðfræði árið 2024 í megindráttum. Þá koma kaflarnir fjórir og inniheldur hver þeirra lýsingu á málaflokki, stöðu, talnaefni, SVÓT-greiningu og aðgerðir.
Staða Austurlands
Staða Austurlands 2024
Mannfjöldi og samsetning hans
SVÓT-greining