Í ár tóku um 700 alþjóðlegir þátttakendur frá 22 löndum þátt í viðburðinum. Markaðsstofa Austurlands var á meðal þeirra mætt á svæðið til að kynna Austurland og ferðaþjónustuna á svæðinu. Fyrir hönd Markaðsstofunnar mættu Alexandra Tómasdóttir og Sigfinnur Björnsson, auk fulltrúa fyrirtækjanna 701 Hotels og Vök Baths.

Fyrirkomulag ferðasýningarinnar er þannig að fundir eru bókaðir og skipulagðir fyrir sýninguna og var Markaðsstofa Austurlands nær fullbókuð alla kaupstefnuna en gafst þó líka tækifæri til að efla tengsl við aðila á milli bókaðra funda.

„Við áttum gríðarlega góða fundi með um 30 ferðaskrifstofum frá Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Tyrklandi, Bandaríkjunum, Indlandi, Kína og Íslandi. Sumir höfðu selt ferðir til Íslands um árabil og þekktu Austurland ágætlega, aðrir voru í leit af breytingu á þeirra núverandi framboði á Íslandsferðum og enn aðrir voru að skoða Ísland sem nýjan áfangastað. Austurlandið á svo gríðarlega mikið inni og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu áhugasamir kaupendurnir voru á fjórðungnum okkar. Margir eru farnir að opna augun og sjá tækifæri í Austurlandi sem heildarpakka frekar en stuttu stoppi á hringferð um landið. Tækifæri í vetrarferðamennsku og gönguferðum ásamt tilvist hreindýranna á Austurlandi vakti sérstaka athygli, og kom það einnig mörgum á óvart hversu fjölbreyttir afþreyingar- og gistimöguleikar eru orðnir á svæðinu. Við erum rétt að byrja hér á Austurlandi og eru straumar ferðamannsins að færast hratt nær því sem við stöndum fyrir,“ sagði Alexandra Tómasdóttir að lokinni kaupstefnunni.

Heimsóknir á ferðasýningar sem þessar og vinnustofur er mikilvægur þáttur í að koma Austurlandi á kortið fyrir alþjóðlegum ferðaskipuleggjendum og vonum við innilega að það haldi áfram að bætast í hóp austfirskra fyrirtækja á sýningum sem þessum.

Mynd: Alexandra Tómasdóttir og Sigfinnur Björnsson. 

 

Nánari upplýsingar


Alexandra Tómasdóttir

865 4277 // [email protected]

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn