Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, heimsótti nýlega Austurbrú og átti fund með Ásdísi Helgu Bjarnadóttur, yfirverkefnastjóra fræðslumála, og Bryndísi Fionu Ford, verðandi framkvæmdastjóra Austurbrúar. Á fundinum var lögð áhersla á samstarf stofnananna með það að markmiði að efla háskólanám á Austurlandi og styrkja þjónustu við háskólanema á svæðinu.
Fjölbreytt og farsælt samstarf hefur verið milli Austurbrúar og Háskólans á Akureyri, einkum í tengslum við prófaþjónustu og stuðning við fjarnámsnema. Skólaárið 2023-2024 voru tæplega 400 próf tengd HA tekin hjá Austurbrú, sem samsvarar tæpum helmingi allra prófa á svæðinu. Þá koma um 31% nemenda sem þreyta próf hjá Austurbrú beint úr námi við HA, sem staðfestir mikilvægi skólans í fjarnámi á Austurlandi.
Á fundinum var einnig fjallað um nýja þróun í háskólanámi á svæðinu. Næsta haust mun Háskóli Íslands hefja staðbundið nám í Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað, 60 ECTS eininga nám sem markar tímamót sem fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi. Í þessu samhengi mun Háskólinn á Akureyri halda áfram að bjóða fjölbreytt fjarnám með staðbundnum stuðningi á Reyðarfirði. Nýtt tveggja ára framhaldsnám í Heilbrigðisvísindum: Heilsugæsla í héraði, klínísk, verður einnig í boði sem fjarnám með staðlotum.
Fundurinn gaf tækifæri til að ræða frekari samstarfsmöguleika til að auka menntunartækifæri fyrir íbúa Austurlands. Með nýjum námsleiðum og aukinni samvinnu fræðslustofnana er ljóst að framtíðin er björt fyrir háskólanema í landshlutanum.
Mynd: Ásdís Helga Bjarnadóttir, Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir og Bryndís Fiona Ford.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn