Sveitarfélög á Austurlandi hafa unnið að sameiginlegri svæðisáætlun um úrgangsmál sem nú er á lokastigi. Aðgerðaáætlun liggur fyrir og kynningarferli hefst á næstu vikum. Markmiðið er að bæta flokkun og nýtingu úrgangs, draga úr urðun og samræma verklag í landshlutanum.
Austurbrú hefur stýrt verkefninu, sem hefur verið í vinnslu frá 2022. Verkefnið er liður í stefnu stjórnvalda um að þróa hringrásarhagkerfi og auka sjálfbærni í meðhöndlun úrgangs.
Vinnan við áætlunina byggir á svæðisskipulagi Austurlands, en einnig á áherslum sem fram komu í ályktunum haustþings SSA og Sóknaráætlun Austurlands 2025-2029. Þar er lögð sérstök áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda og nauðsyn þess að bæta úrgangsmeðhöndlun.
„Sveitarfélögin á Austurlandi komu sér saman um að gera sameiginlega áætlun,“ segir Sara Elísabet Svansdóttir, verkefnastjóri áætlunarinnar. „Þetta er stórt verkefni, og það hefur verið unnið í góðri samvinnu. Við höfum stuðst við reynslu annarra landshluta og fengið ráðgjöf frá Stefáni Gíslasyni hjá Environice, sem hefur unnið svipaðar áætlanir fyrir Norðurland og Vestfirði.“
Svæðisáætlunin tekur mið af breyttu lagaumhverfi úrgangsmála, en samkvæmt nýjum lögum ber sveitarfélögum að draga úr urðun og auka endurvinnslu. Helstu áherslur eru:
„Við þurfum að vita hver staðan er í dag til að geta komist að því markmiði,“ útskýrir Sara. „Krafan er að endurhugsa endurvinnslu, og það eru sett fram skýr markmið um að endurvinnsla heimilisúrgangs verði 50% árið 2025 og 65% árið 2035.“
Drög að svæðisáætlun og aðgerðaáætlun verða kynnt sveitarfélögum á næstu vikum. Í kjölfarið fer áætlunin í almennt samráð, þar sem íbúum, fyrirtækjum og hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma með athugasemdir.
Samkvæmt verkefnisáætlun verður svæðisáætlunin auglýst í sex vikur, að því loknu fer hún til samþykktar í sveitarstjórnum. Stefnt er að því að hún verði formlega samþykkt og birt í vor.
„Þetta er græna byltingin fyrir Austurland,“ segir Sara að lokum og vísar til þeirra breytinga sem framundan eru í úrgangsmálum. „Markmiðið er skýrt: Að vinna saman að sjálfbærari framtíð.“
Sara Elísabet Svansdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn