Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fundaði í vikunni og fékk á fundinn Margréti Maríu Sigurðardóttur lögreglustjóra og Kristján Ólaf Guðnason yfirlögregluþjón til að ræða stöðu lögreglunnar á svæðinu. Á fundinum var sérstaklega fjallað um fjárhagsstöðu og mönnun embættisins, sem hefur staðið frammi fyrir miklu álagi undanfarið vegna ofanflóða, alvarlegra slysa og sakamála.
Í kjölfar fundarins samþykkti stjórn SSA bókun þar sem hún undirstrikar mikilvægi þess að lögreglan á Austurlandi fái aukinn fjárstuðning og fleiri stöðugildi. Bent er á að fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu auki álag á fyrsta viðbragð embættisins, en aukin verkefni á borð við landamæraeftirlit og almannavarnaviðbrögð kalli á tafarlausar aðgerðir.
Krafa SSA um eflingu lögreglunnar á Austurlandi er í takt við áherslur samtakanna um uppbyggingu grunninnviða og opinberrar þjónustu í fjórðungnum. Í Sóknaráætlun Austurlands 2025-2029 er skýrt kveðið á um mikilvægi þess að tryggja íbúum aðgengi að grunnþjónustu, þar á meðal öryggisþjónustu, án tillits til búsetu. Þar kemur einnig fram að undirmönnun í mikilvægum opinberum störfum, sérstaklega í heilbrigðis- og öryggisgeiranum, sé áskorun sem krefst aðgerða.
SSA sendi bókunina til dómsmálaráðherra ásamt hvatningu um að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til lögreglunnar á Austurlandi. Jafnframt lýsir stjórnin ánægju með faglegt starf lögreglunnar í fjórðungnum og hvernig hún hefur tekist á við sívaxandi áskoranir.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn