SSA kallar eftir úrbótum á Suðurfjarðavegi

Slæmt ástand Suðurfjarðavegar kom skýrt í ljós í óveðrinu í febrúar. SSA krefst þess að ríkisvaldið setji uppbyggingu Suðurfjarðavegar í forgang í nýrri samgönguáætlun.

Í bókun stjórnar SSA segir: „Ekki var hægt að koma Stöðfirðingum til aðstoðar í mesta fárviðrinu sem þar geisaði vegna aurflóðahættu, veðurhams og þar sem þjóðvegur 1 fór í sundur nærri byggðalaginu. Íbúar börðust því einir við að draga úr þeirri eyðileggingu sem illviðrið olli. Úr sér genginn Suðurfjarðavegur stóðst ekki álagið sem úrhellið var og ekki bætti símasambandsleysið frá Hafnarnesi og til Stöðvarfjarðar úr skák. Mikil mildi var að ekki urðu slys á fólki við þessar aðstæður.“

SSA krefst þess að ríkisvaldið setji uppbyggingu Suðurfjarðavegar í forgang í nýrri samgönguáætlun og að tryggt verði að farsímasamband á þjóðvegakerfinu nái til allra vegfarenda.

Áhyggjur af stöðu fjarskiptakerfisins

SSA vísar einnig í bókun sína frá 31. janúar í tengslum við greinargerð Fjarskiptastofu um stöðu farnetsþjónustu á stofnvegum landsins. Í henni koma fram áhyggjur stjórnar SSA um að samstarf fjarskiptafyrirtækja við Öryggisfjarskipti ehf. um uppbyggingu háhraðanets á svæðum þar sem markaðsbrestur er til staðar muni tefjast vegna skorts á fjármagni.

Samkvæmt nýrri Fjarskiptaáætlun Austurlands 2024-2025, sem birt verður á vef Austurbrúar í næstu viku, er staðan á fjarskiptasambandi í fjórðungnum afar ófullnægjandi á mörgum lykilsvæðum. Í skýrslunni kemur fram að til að ná fullri farsímadekkun á stofnvegum Austurlands þurfi að bæta við að lágmarki 11 nýjum sendistöðum en vegna fjársveltis ríkisins hefur verkefnið ekki farið í framkvæmd.

Í skýrslunni er einnig bent á að á löngum vegköflum, sérstaklega í fjöllum og snjóþungum svæðum, vanti bæði farnet og Tetra-samband Neyðarlínunnar sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir öryggi vegfarenda.

SSA áréttar að tafir á innviðauppbyggingu séu með öllu óásættanlegar og geti stefnt öryggi vegfarenda, íbúa og ferðamanna í hættu.

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn