Austurbrú hefur ráðið Guðrúnu Ásgeirsdóttur sem verkefnastjóra fræðslumála og prófaumsjónar, auk nýs verkefnis sem ber heitið „Þetta er samfélagið okkar – Efling samfélagsþátttöku og inngildingu íbúa af erlendum uppruna á Austurlandi.“ Guðrún, sem hefur áratuga reynslu úr grunnskólakennslu, hóf störf 1. mars og verður með starfsstöð á Reyðarfirði.
Í nýju starfi mun Guðrún vinna að því að efla fræðslu og prófaumsjón innan Austurbrúar, ásamt því að stuðla að aukinni samfélagsþátttöku og inngildingu íbúa af erlendum uppruna á Austurlandi. Hún hefur brennandi áhuga á menntun og samfélagsmálum og segir að þessi nýja áskorun hafi laðað hana að starfinu. „Eftir tæplega þrjátíu ár sem grunnskólakennari langaði mig til að breyta til og fá tækifæri til að spreyta mig á nýjum vettvangi,“ segir Guðrún.
Í nýja hlutverkinu ætlar hún að leggja áherslu á samþættingu verkefna, meðal annars með tengingu við frumkvöðlaverkefni. Guðrún telur fyrri reynslu geta nýst vel í starfinu og er spennt að takast á við ný verkefni. „Ég sé mikil tækifæri í því að miðla þekkingu minni og reynslu í þessu nýja starfi og vonast til að bæta við áhugaverðri nálgun á þau verkefni sem ég tek þátt í,“ segir hún.
Guðrún er fædd í Vestmannaeyjum, ólst upp á Seyðisfirði en í dag býr hún í Neskaupstað ásamt eiginmanni sínum. Hún á þrjú börn og sex barnabörn og nýtur þess að verja tíma með fjölskyldunni. Áhugamál hennar snúast að miklu leyti um fjölskylduna og útivist. Hún á sumarhús á Siglunesi við Siglufjörð og hefur mikinn áhuga á Jakobsveginum sem hún hyggst ljúka þriðja síðasta hlutanum af á Camino North um páskana.
Við bjóðum Guðrúnu Ásgeirsdóttur velkomna til starfa hjá Austurbrú og óskum henni velfarnaðar í nýjum verkefnum.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn