Fræðsluteymi Austurbrúar heimsótti nýverið Danmörku í gegnum Erasmus+ verkefni til að kynna sér leiðir til að efla aðgengi að námi og ráðgjöf – einkum fyrir fólk af erlendum uppruna, fatlað fólk og háskólanema. Ferðin var bæði lærdómsrík og hvetjandi, segir Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri fræðslumála.
Heimsóknin fór fram dagana 23.–30. mars 2025 og var skipulögð í samstarfi við Holbæk Uddannelses- og Studiecenter (HUSC). Ásdís Helga leiddi verkefnið af hálfu Austurbrúar ásamt Iben Marie With frá HUSC. Meginmarkmið ferðarinnar var að styrkja tengsl við norrænar menntastofnanir og afla innsýnar í fjölbreytt stuðningskerfi fyrir fólk sem stendur utan hefðbundinna námsleiða eða glímir við aðgangshindranir á vinnu- og menntamarkaði.
Hópurinn heimsótti meðal annars HUSC og Huset Lucerna í Holbæk, Café Ingeborg og Glad STU í Ringsted, Háskólann í Roskilde og samfélagsmiðstöðina INSP! auk tungumálaskólans Studieskolen í Kaupmannahöfn.
„Ferðin bauð upp á dýrmæt tækifæri til að kynnast nýstárlegum lausnum í menntun, ráðgjöf og félagslegri nýsköpun,“ segir Ásdís Helga og bætir við að margt hafi vakið sérstaka athygli, sérstaklega hvernig samfélagsleg ábyrgð birtist í gegnum þátttöku fyrirtækja í stuðningi við einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn.
„Í mínum huga var virkilega áhugavert að sjá hve sterk og sýnileg samfélagsábyrgðin er – t.d. með því að kosta ráðgjafa eða leiðtoga til að styðja við ungt fólk óháð uppruna, kyni eða líkamlegri og andlegri getu,“ segir hún.
Hún nefnir einnig að það séu tækifæri fólgin í því að efla formlegt samstarf Austurbrúar við fleiri atvinnugreinar. „Í dag eru samstarfsaðilar Austurbrúar fyrst og fremst ferðaþjónustufyrirtæki, en að mínu mati gæti þátttaka fyrirtækja úr fleiri geirum haft jákvæð áhrif á samfélagsþróun.“ Sem dæmi nefnir hún Corolab í Danmörku, vettvang þar sem opinberir aðilar, fræðasamfélag og atvinnulíf vinna saman að nýsköpun og sjálfbærni – og lítur á slíkt fyrirkomulag sem innblástur fyrir Austurland.
„Þekkingin sem aflaðist verður nýtt til að efla fræðslustarf Austurbrúar og miðlað áfram til samstarfsfólks og annarra sem tengjast sambærilegum verkefnum á Austurlandi og víðar,“ segir hún að lokum. „Markmiðið er alltaf það sama – að gera gott starf enn betra, með nemandann í forgrunni.“
Mynd fyrir ofan: Ferðalangar frá Austurbrú (f.v.): Ásdís Helga, Hrönn Grímsdóttir, Úrsúla Manda Ármannsdóttir og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir (Bobba).
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn