Aðalfundur Símenntar – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á Íslandi – fór fram dagana 15. og 16. maí í Farskólanum á Sauðárkróki. Fundinn sóttu fulltrúar frá öllum ellefu aðildarsamtökum samtakanna víðs vegar af landinu.
Á fundinum var starfsári samtakanna gerð skil, farið yfir helstu verkefni stjórnar og dregin upp mynd af því sem hæst ber í starfi aðildarmiðstöðvanna. Að loknum aðalfundi var haldinn félagsfundur og í framhaldi af honum fóru fundargestir í vettvangsferð um Skagafjörð. Þar fengu fundarmenn m.a. kynningu á fræðslustarfi verkefnisins Beint frá býli, sem Farskólinn stendur að, og var ferðin bæði fróðleg og hvetjandi. Hún undirstrikaði jafnframt mikilvægi þess að tengja fræðslu við atvinnulíf, staðbundna þekkingu og samfélagsþróun.
Nánari upplýsingar um starfsemi Símenntar má finna á heimasíðu samtakanna.
Við stjórnarkjör á fundinum var ný stjórn Símenntar skipuð. Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, var kjörin formaður samtakanna. Halldór B. Gunnlaugsson frá Farskólanum gegnir hlutverki ritara og Vigdís Ásmundsdóttir frá Fræðslumiðstöðinni Framvegis tekur við sem gjaldkeri.
Austurbrú óskar Ásdísi Helgu og nýrri stjórn velfarnaðar í störfum sínum á vettvangi símenntunar og fræðslu.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn