Farsældarráð á Austurlandi
Árið 2025 hófst tveggja ára átaksverkefni sem hefur þann tilgang að koma á farsældarráði á Austurlandi í samræmi við 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur styrkt SSA og önnur landshlutasamtök til að ráða verkefnastjóra sem leiða verkefnið í hverjum landshluta. Verkefnastjóri farsældar á Austurlandi er starfsmaður Austurbrúar sem annast daglegan rekstur SSA.
Samvinna um farsæld barna
Farsældarráð á Austurlandi verður svæðisbundinn samráðsvettvangur þjónustuveitenda sem bera ábyrgð á þjónustu við börn og fjölskyldur í landshlutanum. Verkefnastjóri mun auk sérskipaðs undirbúningshóps vinna að stofnun farsældarráðsins í haust. Hópurinn er skipaður fagfólki tilefnt af sveitarfélögunum en í farsældarráðinu munu sitja fulltrúar fræðslu- og félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, frístunda- og íþróttastarfs auk annarra aðila eftir þörfum landshlutans. Áætlað er að ráðið verði fullskipað og starfandi fyrir lok þessa ársins 2025.
Áherslur
Markmið samstarfsins er að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur á Austurlandi með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun. Þá mun farsældarráð vinna að því að styrkja þverfaglegt samstarf og tryggja að farsæld barna sé leiðarljós í stefnumótun og framkvæmd þjónustu í landshlutanum.
Farsældarráð á Austurlandi mun vinna að eftirfarandi áherslum, í samræmi við farsældarlög:
• Samhæfðri og snemmtækri þjónustu við börn og fjölskyldur.
• Fjölgun tækifæra barna til náms, frístunda og samfélagsþátttöku, óháð aðstæðum og bakgrunni.
• Faglegu samstarfi milli þjónustuveitenda ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka.
• Öflugu forvarnarstarfi og stuðningsúrræðum sem stuðla að öryggi, velferð og farsælum þroska barna.
• Virku samráði við börn og foreldra.
• Mótun fjögurra ára aðgerðaáætlunar, sem byggir á svæðisbundnum styrkleikum og áskorunum.
Innan tólf mánaða frá stofnun ráðsins skal mótuð svæðisbundin aðgerðaáætlun til fjögurra ára í þágu farsældar barna á Austurlandi.
Verkefnastjóri farsældar
Með ráðinu starfar Nína Hrönn Gunnarsdóttir, verkefnastjóri farsældar á Austurlandi
Hún heldur utan um daglega framkvæmd, undirbýr fundi og tryggir eftirfylgni ákvarðana. Nína hefur aðsetur og starfar í umboði Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, Austurbrúar og er tengiliður ráðsins við Barna- og fjölskyldustofu.
Verkefnastjóri er ekki meðlimur í farsældarráði og tekur því ekki þátt í formlegri ákvarðanatöku þess.