Samband sveitarfélaga á Austurlandi hélt sjöunda haustþing sitt á Vopnafirði 18. september. Þar komu saman sveitarstjórnarfólk, þingmenn kjördæmisins og aðrir gestir til að ræða helstu hagsmunamál Austurlands og samþykkja ályktanir um brýn úrlausnarefni.
Í stjórnmálaályktun þingsins var lögð rík áhersla á að íbúar Austurlands hafi greiðan aðgang að öflugri geðheilbrigðisþjónustu til jafns við aðra landsmenn. Í ræðu sinni sagði formaður SSA að áföll síðustu ára hefðu markað samfélagið djúpum harmi og því væri brýnt að efla þjónustuna sérstaklega fyrir börn og ungmenni. „Geðheilbrigðismál eru okkur efst í huga,“ sagði hún og ítrekaði að SSA myndi beita sér af festu í þeim efnum.
Þingið sendi jafnframt skýr skilaboð um samgöngur og krafðist tafarlausrar hringtengingar Austurlands með jarðgöngum og framkvæmda við Suðurfjarðaveg og Öxi í samræmi við Svæðisskipulag Austurlands 2022–2044. Ítrekað var að Austurland væri næst í röðinni hvað varðar jarðgangaframkvæmdir. Þá var lýst yfir áhyggjum af síhækkandi fargjöldum í innanlandsflugi og gjaldtöku á Egilsstaðaflugvelli sem þingið hafnaði sem landsbyggðarskatti. Áhersla var einnig lögð á að tryggja jöfnun raforkukostnaðar og að skatttekjur af fiskeldi og orkumannvirkjum renni beint til þeirra sveitarfélaga þar sem starfsemin fer fram. Þá var ályktað um fjarskiptamál sem brýnt öryggismál í landshlutanum og hversu mikilvægt það væri að tryggja samband á fjölförnum leiðum í ljósi úreldingar eldri farsímakerfa.
Á þinginu var Smári Geirsson kynntur sem heiðursgestur fyrir fjölbreytt störf sín á sviði menntunar, stjórnmála og menningar, og Björg Einarsdóttir hlaut menningarverðlaun SSA fyrir áralangt starf við Minjasafnið á Bustarfelli og samfélagsmál á Vopnafirði.
Berglind Harpa Svavarsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn