Nýtt norrænt samstarfsverkefni um fæðuöryggi, FLORA, var hleypt af stokkunum í Sisimiut á Grænlandi í síðustu viku. Verkefnið byggir á að viðhalda og virkja hefðir í matvælaframleiðslu og þróa byggðir út frá þeim. FLORA hlaut styrk frá NAPA, norrænu menningarstofnuninni á Grænlandi, og tekur Austurbrú þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. Auk Íslands koma aðilar frá Grænlandi, Færeyjum, Norður-Noregi og Orkneyjum að verkefninu.
FLORA stendur yfir í þrjú ár. Á þeim tíma verða haldnar vinnustofur í öllum þátttökulöndum þar sem unnið verður með arfleifð í matarmenningu og hvernig megi byggja á henni til að þróa nýjar afurðir. Markmiðið er að varðveita hefðir um leið og þær eru gerðar sýnilegri og aðgengilegri fyrir nýjar kynslóðir. Með þessu er unnið að því að auka þekkingu og meðvitund í matvælaframleiðslu — sem er grunnforsenda fæðuöryggis — og hefur áherslan á gildi gamalla hefða farið ört vaxandi síðustu ár.
Sisimiut, næststærsti bær Grænlands, er ein helsta miðstöð rækjuvinnslu landsins. Þar stunda margir íbúar strandveiðar auk hefðbundinna veiða á sel, hval, hreindýrum og moskusuxum. Í Sisimiut mætast stór sjávarútvegsfyrirtæki sem selja afurðir sínar víða um heim og einyrkjar sem halda í gamlar venjur og veiðiaðferðir. Þótt hefðbundnar veiðar hafi átt undir högg að sækja má sjá merki um aukinn áhuga á þeim meðal yngra fólks. Þá eru einnig nokkrir frumkvöðlar í nýrri ræktun og framleiðslu, meðal annars í lóðréttri ræktun innanhús en ljóst er að matvælaframleiðsla smárra og meðalstórra aðila er enn mjög takmörkuð.
FLORA byggir á sama grunni og verkefnið Sjávarföll, sem Austurbrú hefur unnið að með styrk frá Byggðastofnun, og snýst um vöruþróun byggða á matarhefðum í sjávarútvegi. Stefnt er að því að halda vinnustofu á Austurlandi haustið 2026 með þátttakendum frá Íslandi og öðrum samstarfslöndum verkefnisins.
Myndir: Torfi Jóhannsson og Urður Gunnarsdóttir.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn