Opinn fundur um þróun og framtíðarhorfur íbúðamarkaðar á Austurlandi var haldinn fimmtudaginn 20. nóvember í húsnæði Austurbrúar á Reyðarfirði. Fundinn sóttu um 35 manns og skapaðist góð og gagnleg umræða um stöðu húsnæðismála í landshlutanum. Að fundinum stóðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), samstarfsverkefnið Tryggð byggð og Austurbrú.
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hóf fundinn með yfirferð um stöðu húsnæðismála í sínu sveitarfélagi. Þá fór Jón Örn Gunnarsson, sérfræðingur húsnæðisáætlana hjá HMS, yfir stöðu íbúðauppbyggingar og húsnæðisáætlanir sveitarfélaga á Austurlandi og greindi helstu áskoranir og tækifæri í landshlutanum.
Dagný Geirdal, verkefnastjóri Mannvirkjaskrár hjá HMS, kynnti að lokum innleiðingu stafrænnar stjórnsýslu í byggingarmálum, þar á meðal sameiginlegt umsóknarkerfi fyrir byggingarleyfi og ávinning þess fyrir sveitarfélög og íbúa.
Á fundinum var jafnframt skrifuð undir viljayfirlýsing milli HMS og Fjarðabyggðar um áframhaldandi uppbyggingu íbúða og eflingu stafrænnar stjórnsýslu. Með yfirlýsingunni er m.a. lagt upp með að hraða nýbyggingum, bæta yfirsýn yfir íbúðalóðir og styrkja vinnulag við afgreiðslu mála — aðgerðir sem styðja við markmið um tryggt húsnæðisöryggi og fjölbreyttan íbúðakost á Austurlandi.
Fundarstjóri var Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Gestum var boðið í léttar veitingar og í samtal við frummælendur að fundi loknum.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn